6 C
Grindavik
26. febrúar, 2021

Sárir en samhljóma strengir

Skyldulesning

Hvarvetna má sjá fólk á spjalli í götuhornum.

Snjófölin á Seyðisfirði er kærkomin sjón. Íbúar eru í sárum en strengir fólks eru samhljóma. Þakklæti og mildi eru fólki í huga. Margir skima í átt að hamfarasvæðinu sem enn er lokað þótt íbúum hafi sumum verið hleypt þangað inn til að huga að verðmætum, ná í brók og jafnvel jólapakka. 

Strákar í göngutúr

Mbl.is ræddi við fólk á förnum vegi í bænum. Hver hefur þó sína sögu að segja af þeim atburðum sem hafa átt sér stað. 

„Hún var alvitlaus“ 

„Skriðan fór sitthvorumegin við húsið mitt,“ segir Sigríður Guðlaugsdóttir, eða Sigga Boston eins og hún er alla jafna kölluð. Hún segir að hundurinn Hekla Boston hafi bjargað sér þegar stóra skriðan féll og segir hún það ekki í fyrsta skipti. „Hún [Hekla] var alvitlaus áður en þetta fór allt af stað. Ég leit því upp í fjall og sá að allt var að fara af stað, fór í stígvél og út,“ segir Sigga, en allt í kringum húsið hennar má sjá hús sem eru rústir einar. Hún segir að hún ætli suður til Reykjavíkur um jólin.  

Sigga og Hekla Boston í göngutúr á Seyðisfirði. Hekla bjargaði …

Þorvaldur Jóhannesson, íbúi á Seyðisfirði til 60 ára, segir erfitt að horfa á eftir menningarverðmætum. Undir það tekur Ásgeir Magnússon, fyrrverandi slökkviliðsstjóri og hafnarvörður. „Auðvitað er þetta slag fyrir fólk en guði sé lof að það urðu ekki slys á fólki. Það er númer 1, 2 og 3,“ segir Ásgeir. 

Ásgeir Magnússon.

Líf er að komast aftur í bæinn og hvarvetna má sjá fólk í göngutúr með hunda og börn. Þess á milli aka viðbragðsaðilar hjá með blikkljósin kveikt. Andstæðurnar eru augljósar og innan við hamfaralínuna er þrúgandi kyrrð og margir hafa áhyggjur af eigum sínum og bíða þess að sjá hvernig umhorfs er umhverfis hús þeirra. Fólk langar heim. „Þó ekki væri nema til að fá eina brók,“ segir einn viðbragðsaðila í gamansömum tón. Viðbragðsaðilar eru með starfsstöð á höfninni. 

Fólk getur fengið fylgd að heimilum sínum sem eru á …

Fólk getur fengið fylgd að heimilum sínum sem eru á skilgreindum hættursvæðum. Hér má sjá fólk skrá sig.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég ætla að taka þátt í henni“ 

Marko Nikolic eigandi kjörbúðarinnar opnaði verslun sína í morgun að nýju eftir lokun. „Það er alltaf gott að koma heim þótt þetta sé vissulega smá skrítið allt saman. Það eru kannski ekki margir viðskiptavinir en það skiptir engu. Við þurfum að koma okkur aftur í gang og fara að lifa,“ segir Marko. 

Marko við Kjörbúðina.

Ingvi Örn Þorsteinsson hönnuður var í göngutúr með hundinn sinn til móts við kirkjuna. Honum finnst gott að koma til baka. „Nú tekur við bara uppbygging og ég ætla að taka þátt í henni,“ segir Ingvi. 

Sumir þurfa eftirfylgd áfram 

Í sömu mund kemur Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur og kona Ingva, út úr kirkjunni. Hún hvetur þá sem þurfa að tala við teymi sem veitir áfallahjálp að gera það. „Það er alltaf hægt að leita eftir aðstoð og hafa samband,“ segir hún og bætir við: „Þetta er bara upphafið en við eigum alla vinnuna eftir við að byggja okkur upp andlega og sumir munu þurfa eftirfylgd í nokkurn tíma,“ segir Sigríður.

Innlendar Fréttir