Sáu gríðarlega stóran sandstorm á plánetu sem er næstum 20 sinnum stærri en Júpíter – DV

0
87

Stjörnufræðingar uppgötvuðu gríðarlega stóran sandstorm á á plánetunni VHS 1256 b sem er í um 40 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er engin smásmíði því hún er um 20 sinnum stærri en Júpíter, sem er stærsta plánetan í sólkerfinu okkar. Stjörnufræðingarnir notuðu James Webb geimsjónaukann við rannsóknina. Auk sandstormsins uppgötvuðu þeir að í andrúmslofti plánetunnar er einnig vatn, metan og koltvíoxíð.

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í The Astrophysical Journal Letters.

VHS 1256 b er á braut um tvær stjörnur en í svo mikilli fjarlægð frá þeim að það tekur hana 10.000 ár að fara einn hring um þær.

Vegna þess hversu langt frá stjörnunum plánetan er þá hefur ljósið frá þeim ekki áhrif á hana og því geta vísindamenn horft beint á hana.

Hún er mjög heit en hitinn í ytri lögum lofthjúpsins er 830 gráður. Plánetan er frekar ung eða um 150 milljón ára gömul. Vegna fjarlægðarinnar frá stjörnunum mun hún kólna og það gæti rofað til í lofthjúpnum.