Þau hrikalegu tíðindi flugu eins og eldur í sinu um allt skip að hér um borð leyndist sauðaþjófur af bíræfnustu gerð. Er hans ákaft leitað og allar vistarverur fínkembdar í von um að finna sönnunargögn, kjamma eða eitthvað álíka sem vísað gætu á þjófsræksnið.

Þannig var mál með vexti að Einar stýrimaður tók frá sviðakjamma og hafði með sér á vaktina og hugðist gæða sér á honum er garnagaulið léti hann vita að eitthvað þyrfti til að settla þau hljóð. Að vísu var hann búinn að nibba aðeins í kjammann en reyndi að treina sér hann sem lengst. Hafði hann ákveðið að geyma hann uppi hjá sér á diski og eiga hann til góða á næstu vakt og lagði sig fullur tilhlökkunar um hvað biði hans er hann kæmi á vaktina aftur.

Skemmst er frá því að segja að er hann kom aftur á vaktina var búið að skafa kjammann svo svakalega að það stirndi á tennurnar sem glottu við aumingja Einari sem grét fögrum tárum yfir góðgætinu sem eitthvert illmennið hafði rænt frá honum. Hyggur hann á hefndir og eru þeir sem geta gefið einhverjar upplýsingar hvattir til að hafa samband við Einar sem allra fyrst svo uppræta megi sauðaþjófinn sem allra fyrst og kenna honum lexíu sem hann gleymir ekki!

Myndin tengist fréttinni ekki beint…. og þó!