-2 C
Grindavik
20. janúar, 2021

Saumaður 6 spor eftir slagsmál

Skyldulesning

Fjórir gista fangageymslur lögreglu eftir slagsmál í Austurbænum í gærkvöldi. Sauma þurfti sex spor í andlit eins þeirra á bráðamóttökunni eftir slagsmálin. Í Mosfellsbæ réðust fjögur, þrír karlar og ein kona, á par og veittu þeim áverka. 

Lögreglunni barst tilkynning um slagsmál í hverfi 105 um hálf tólf í gærkvöldi og voru fjórmenningarnir, allir ölvaðir, handteknir. Einn var fluttur á bráðamóttökuna fyrir vistun í fangageymslu en hann hafði verið sleginn í andlitið með flösku eða glasi. Eftir að hafa verið saumaður í andlitið var hann fluttur í fangageymslur lögreglunnar. 

Líkamsárásin í Mosfellsbænum var tilkynnt til lögreglu um hálf tíu í gærkvöldi en karlarnir þrír og konan veittu parinu áverka en ekki var vitað hversu alvarleg meiðslin voru þegar árásin var skráð í dagbók lögreglu. Einhverjar deilur hafa verið á milli fólksins. Hópurinn sem réðst á parið var farinn af vettvangi þegar lögregla kom þangað en hann er einnig grunaður um hótanir eignaspjöll og rán. Málið er í rannsókn lögreglu. 

Brotist var inn í skúr við Ingólfstorg á tólfta tímanum í gærkvöldi og þar stolið skautum. Vitni sá til mannanna og að þeir fóru af vettvangi á tveimur bifreiðum. Málið er í rannsókn lögreglu. 

 Skömmu fyrir miðnætti hafði lögregla afskipti af ökumanni bifreiðar í Mosfellsbæ. Maðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og eða lyfja og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Bifreiðin var með röng skráningarnúmer og ótryggð.  Skráningarnúmer bifreiðarinnar voru haldlögð af lögreglu.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra var einnig undir áhrifum áfengis. Þeir hafa allir verið stöðvaðir ítrekað undir stýri þrátt fyrir að hafa verið sviptir ökuréttindum. Mennirnir voru stöðvaðir í þremur hverfum, 101, 104 og 108.

Innlendar Fréttir