4 C
Grindavik
8. maí, 2021

Segir að það hljóti að vera samkynhneigður leikmaður í ensku deildinni – „Hræðslan er svo raunveruleg“

Skyldulesning

„Hvernig mun fólk bregðast við? Mun ég fá áreiti frá stuðningsmönnunum? Munu leikmennirnir ekki samþykkja mig? Mun ég þurfa að fara í annað lið?“ 

Þetta hugsaði knattspyrnumaðurinn Andy Brennan síendurtekið áður en hann tók eina stærstu ákvörðun lífs síns, að koma úr skápnum og vera þar með fyrsti ástralski knattspyrnumaðurinn sem er opinberlega samkynhneigður. „Það tók mig ár að geta sagt þetta – ég er samkynhneigður,“ sagði Brennan í Instagram-færslu árið 2019. „Þetta var komið á þann stað að mér var orðið óglatt af því að halda þessu leyndu,“ segir Brennan í nýlegu viðtali við SPORTbible um ákvörðunina að koma úr skápnum.

Brennan sér ekki eftir ákvörðuninni í dag, hann segist þetta ekki hafa verið þá stærstu heldur að þetta hafi verið besta ákvörðun sem hann hefur tekið. Hann segist hafa orðið miklu léttari á sér eftir tilkynninguna og nú vill hann að aðrir samkynhneigðir knattspyrnumenn geti líka komið úr skápnum.

„Mér líður eins og þetta sé þessi staðlaða hugmynd, fólk heldur að það sé ekki hægt að vera samkynhneigður atvinnumaður. Ég er lifandi sönnun þess að það er hægt og fólk tekur vel í það,“ segir Brennan í viðtalinu. Hann segist ekki vita hvers vegna menn ákveða að halda sér inni í skápnum. „En hræðslan er svo raunveruleg, hræðslan um að þú fáir ekki sömu tækifærin eftir allan þennan tíma, það er óhugnanlegt.“

Brennan bendir á það að miðað við tölfræðina þá hljóti að vera einhver samkynhneigður leikmaður í efstu deildinni á Englandi. „Því miður þá munu þeir leikmenn örugglega bíða með að koma úr skápnum þangað til þeir eru hættir að spila,“ segir Brennan og bendir á mikilvægi þess að fyrirmyndir taki þetta skref. „Jafnvel ef þetta væri bara einn maður sem spilar í efstu deildunum sem kæmi út – það gæti hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Vonandi er einhver nógu hugrakkur til að gera það.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir