3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

Segir af sér eftir 40 ára starf

Skyldulesning

Gordon Taylor, formaður leikmannasamtakanna á Englandi í knattspyrnu mun láta af störfum í lok yfirstandandi tímabils. Hann hefur verið formaður samtakanna síðan 1981 og því munu vera liðin 40 ár þegar hann hættir á næsta ári.

Leikmannasamtökin hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár, sérstaklega í tengslum við greiningar á elliglöpum, sem verða æ algengari hjá fyrrverandi knattspyrnumönnum.

Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt samtökin fyrir skort á aðgerðum og stuðningi í tengslum við greiningar á elliglöpum hjá fyrrverandi leikmönnum er Chris Sutton, fyrrverandi leikmaður Blackburn Rovers og Chelsea, en faðir hans Mike Sutton var einnig atvinnumaður í knattspyrnu og hefur verið greindur með elliglöp.

Í sama streng hefur John Stiles, sonur Nobby Stiles fyrrverandi leikmanns enska landsliðsins og Manchester United, tekið. Nobby var sömuleiðis greindur með elliglöp og lést fyrir tæpum mánuði síðan.

Þá greindist Bobby Charlton, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins og Manchester United, með elliglöp á dögunum. Bróðir hans, Jack Charlton, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins og Leeds United, lést í sumar. Hann var sömuleiðis greindur með elliglöp.

Taylor hefur undanfarið ákveðið að leggja aukið fjármagn í rannsóknir á elliglöpum hjá knattspyrnumönnum en hefur engu að síður ákveðið að segja af sér.

Samkvæmt rannsóknum eru knattspyrnumenn tvisvar til fimm sinnum líklegri til þess að  láta lífið úr hrörnunarsjúkdómum á við elliglöp.

Innlendar Fréttir