6.3 C
Grindavik
26. september, 2021

Segir hvimleitt að leikirnir klárist ekki á sama tíma en árangurinn frábæran

Skyldulesning

Jón Þór Hauksson var í skýjunum með sigur Ísland á Ungverjalandi fyrr í kvöld og sagði sigurmarkið stórkostlegt.

„Ég er í skýjunum með sigurinn og sigrana tvo,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, eftir 1-0 sigurinn gegn Ungverjalandi í undankeppni EM í kvöld.

Berglind Björg Þorvalsdóttir skoraði fyrsta og eina mark leiksins í síðari hálfleik en sigurinn fleytir Íslandi svo gott sem á EM. Ísland vann því báða leiki sína í þessari ferð og við það var stjórinn ánægður.

„Við gátum ekki fengið neitt meira út úr ferðinni. Virkilega vel gert. Við höfum áður talað um það að „double header“ hafi ekki alltaf skilað okkur sex stigum en þeir gerðu það núna. Þetta er frábær árangur og nítján stig í þessum riðli er frábær árangur.“

Hann var næst spurður út í leik dagsins sem var ansi erfiður og voru Ungverjarnir ansi þéttir fyrir.

„Þessi leikur var erfiður. Ungverjarnir voru virkilega þéttir og lágu þétt til baka og voru agaðir í sínum varnarleik. Okkur gekk illa að finna glufur á þeim varnarleik en það var stórkostlegt mark hjá Berglindi sem tryggði þessi frábæru þrjú stig og árangurinn. Við þurftum eitthvað sérstakt og það kom frá Berglindi.“

„Stíga út varnarmanninn og afgreiðslan góð. Mark sem tryggði okkur þennan frábæra árangur. Við hefðum viljað gera betur í sóknarleiknum og við fengum stöðurnar en þetta eina mark dugði okkur til þess að tryggja stigin þrjú.“

Berglind hefur heldur betur gripið tækifærin að undanförnu en hún hefur skorað í báðum leikjum liðsins í þessari ferð eftir að hafa setið mest á bekknum það sem af er undankeppninni.

„Berglind hefur verið algjörlega frábær fyrir okkur. Elín byrjaði þessa undankeppni og skoraði í öllum leikjum. Samkeppnin er mikil og Berglind hefur verið virkilega til fyrirmyndar; hennar hugarfar og er tilbúin að hjálpa liðinu. Kemur inn í byrjunarliðin og skorað í báðum leikjunum. Við höfum alltaf vitað af henni og við höfum rætt það saman að hún hefur traust. Hún hefur traust frá okkur og þegar tækifærið kemur þá er hún frábær leikmaður. Hún hefur nýtt tækifærin frábærlega.“

Því miður fyrir íslenska liðið kláruðust allir leikirnir í undankeppninni ekki í kvöld og því þarf liðið að bíða mögulega fram í febrúar til þess að vita hvort að þær séu komnar á EM beint eða þurfi í umspil.

„Það er hvimleitt að þessir leikir klárist ekki á sama tíma. Það er ekki í okkar höndum og það var leiðinlegt. Allt sem var í okkar valdi stóð og við getum ekki gert neitt meira. Nú er að bíða og sjá hvernig þetta endar. Við erum búin að gera okkar og ef að við förum í umspil þá gerum við það. Við erum með frábært lið,“ sagði Jón Þór.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir