7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Segir Mosfellsbæ stunda þrælahald – „Ekkert nema skömm og blettur á sveitarfélaginu“

Skyldulesning

Þegar einstaklingar með fjárhagsaðstoð hjá Mosfellsbæ vinna fyrir bæjarfélagið dragast tekjur þeirr frá fjárhagsaðstoðinni. Þetta hefur vakið óánægju sumar íbúa sem þykir þetta óréttlátt og sumir taka svo stórt upp í sig að kalla fyrirkomulagið þrælahald.

„ÉG ER ALLS EKKI SÁTTUR,“ skrifar íbúi Mosfellsbæjar í Facebook-hóp íbúanna í bæjarfélaginu. Ástæðan fyrir ósætti íbúans er það hvernig Mosfellsbær kemur fram við fólk í bágri stöðu. „Ósk mín er sú að sú spurning og sú umræða sem hér á eftir fari fram leiði til einhverra jákvæðra breytinga innan Mosfellsbæjar og á vegum bæjarstjórnar. Ég sjálfur er engan veginn sáttur með stöðu mála og reyndar bara mjög reiður,“ segir íbúinn og útskýrir því næst stöðu mála.


Íbúinn segir frá því að í Mosfellsbæ eru nokkrir einstaklingar sem komu til landsins sem kvótaflóttamenn. Þeir fengu stuðning ríkis og núna Mosfellsbæjar til að koma sér fyrir í samfélaginu og koma undir sig fótunum.

„Fyrsta árið er styrkt af ríkinu, en svo tekur hvert sveitarfélag við og fer einstaklingur þá inn í þau félagslegu úrræði sem eru fyrir hendi hjá hverju sveitarfélagi. Sumir eru komnir út á vinnumarkaðinn að hluta eða öllu leyti, en aðrir eru enn skráðir í nám. Það er mælt með því að jafnvel þeir sem eru í námi nýti sér starfsúrræði til að tengjast samfélaginu og eru þau úrræði þá oftast á vegum sveitarfélagsins,“ segir maðurinn.


Segir einstaklinginn vinna launalaust

Íbúinn segist þekkja til eins einstaklings sem enn er skráður í nám. „Viðkomandi fær styrk bæjarfélagsins upp á 180 þúsund krónur á mánuði til að lifa,“ segir maðurinn og bætir við að af þeim 180 þúsund krónum fara 180 þúsund krónur í leigu á íbúðinni sem viðkomandi dvelur í.

„Er vart hægt að gera ódýrari leigu en það á markaði. Viðkomandi fær 50 þúsund krónur í húsaleigubætur, og hefur þannig 50 þúsund krónur á mánuði til að lifa af. OFAN Á ÞETTA vegna þess að það er talið gagnast viðkomandi, þá er viðkomandi vinnandi hjá eftirskólaúrræði bæjarins í nokkra tíma á dag. Þau laun dragast frá 180 þúsund krónunum sem viðkomandi hafði áður rétt á frá bænum og er því viðkomandi vinnandi LAUNALAUST FYRIR MOSFELLSBÆ.“

„Eruð þið sátt við að Mosfellsbær stundi þrælahald?“

Eftir þessa útskýringu spyr íbúinn aðra í hópnum nokkurra spurninga. „Finnst ykkur í lagi að Mosfellsbær nýti sér frítt vinnuafl flóttamanna? Er það í lagi að bærinn borgi aðeins 180 þúsund krónur á mánuði til einstaklings sem er skráður í nám eða þarf á stuðning að halda ( gæti verið sama upphæð fyrir ekki flóttamann)?“ spyr maðurinn og heldur áfram.

„Finnst ykkur í lagi að bærinn telji sig geta komist þannig upp með að halda viðkomandi einstakling sem einhverskonar fanga í fjárhagsfjötrum og eigi þannig erfiðara með að koma undir sig fótunum ? Eruð þið sátt við að Mosfellsbær stundi þrælahald, því þetta er í raun það í mínum huga, og ekkert annað? Erum við sátt við þetta?“

Það leið ekki á löngu þar til íbúar Mosfellsbæjar voru byrjaðir að tjá sig um málið í athugasemdum undir færslunni. „Þetta er ekki í lagi. Takk fyrir að vekja athygli á þessu,“ sagði einn íbúi og fleiri tóku í sama streng. „Þetta er ekkert nema skömm og blettur á sveitarfélaginu,“ sagði annar. „Til skammar!“ sagði síðan enn annar.

Segir að um laun sé að ræða þrátt fyrir að þau dragist af aðstoðinni

DV leitaði svara hjá Mosfellsbæ vegna málsins. Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar, svaraði spurningum DV um málið en hann staðfesti sögu mannsins, það er að laun fyrir vinnuna dragast af styrknum. „Þeir einstaklingar sem njóta framfærslu vegna náms og sækja vinnu samhliða því námi gera slíkt að eigin ósk eða frumkvæði og vita að slíkt hefur áhrif til lækkunar á þeim bótum sem þeir þiggja frá sveitarfélaginu,“ segir Arnar.

„Vinna Mosfellsbæjar með einstaklingum sem njóta fjárhagsaðstoðar miðar að því að efla og styrkja einstaklinga og atvinnuþátttaka er iðulega hluti af þeim stuðningi sem sveitarfélagið hvetur til í samvinnu við viðkomandi einstaklinga. Fjárhagsaðstoð sem sveitarfélög veita er ekki hugsuð til viðbótar við þær tekjur sem viðkomandi aflar sér við launuð störf og því koma atvinnutekjur til frádráttar frá fjárhagsaðstoð.“

Ef einstaklingur með fjárhagsaðstoð frá Mosfellsbæ vinnur fyrir Mosfellsbæ þá dragast tekjurnar hans af fjárhagsaðstoðinni. Viðkomandi fær því ekki meiri pening en hann hefði fengið, þrátt fyrir að vinna fyrir sveitarfélagið. Arnar vill þó meina að þetta þýði ekki að einstaklingurinn sé að vinna launalaust. „Sú fullyrðing að einstaklingar vinni launalaust hjá Mosfellsbæ á sér enga stoð í raunveruleikanum. Hjá Mosfellsbæ eru laun að sjálfsögðu greidd fyrir allt vinnuframlag starfsmanna samkvæmt kjarasamningum,“ segir hann.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir