1 C
Grindavik
17. janúar, 2021

Segist ekki hafa hótað Katrínu og gefur sig fram við lögreglu – „Það er verið að þagga niður í mér“

Skyldulesning

Fréttablaðið greindi frá því fyrir skemmstu að Lög­reglan á Austur­landi væri nú að ræða við karl­mann vegna meintra hótana, sem fjölmiðlar hafa fjallað um í dag, gagnvart Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Sjá einnig: Uppnám á Seyðisfirði – Katrínu hótað

Fram kemur að karl­maðurinn sé íbúi á Seyðis­firði og sé hreinlega ekki sáttur við atburði síðast­liðinna daga, en hann ræddi við Fréttablaðið og sagði að hamfarirnar á Seyðis­firði væru ekki náttúru­ham­farir heldur afleiðingar van­rækslu stjórnvalda, sem hefðu getað komið í veg fyrir svona mikla eyðileggingu.

„Ég vil láta vita að lög­reglan er að taka mig á lög­reglu­stöðina vegna hótana. Ég er í Rauða krossinum núna sem hún [for­sætis­ráð­herra] er á leið að heim­sækja og ég hef verið beðin að fara,“

„Þetta er mis­notkun á valdi og spilling. Ég er að fara á lög­reglu­stöðina núna,“

Einnig hafi maðurinn verið spurður hvort hann hafi hótað forsætisráðherra, en svarað því neitandi.

„Nei. Ég hringdi í þrjá eða fjóra þing­menn í morgun og Elizu Reid og talaði um það sem hefur gerst á Seyðis­firði og að ekki sé um náttúru­ham­farir að ræða heldur mis­tök hjá ríkis­stjórninni. Það er verið að þagga niður í mér og ég fer með mínum eigin vilja,“

Þá hafi Kristján Ólafur Guðnason, lögreglufulltrúi á Austurlandi, staðfest að lögreglan sé nú að ræða við mann vegna málsins, en enginn hafi verið handtekinn.

Þá greindi Austurfrétt frá því að maðurinn hafi sent blaðamanni tvö SMS-skeyti, sem voru eftirfarandi:

„Það er verið að handtaka mig af lögreglunni fyrir að segja hug minn“

„Ég verð á lögreglustöðinni meðan forsætisráðherra hittir fólk á Egilsstöðum.“

Innlendar Fréttir