Segja Jóhann Berg og fé­laga sæta rann­sókn fyrir hag­ræðingu úr­slita – Vísir

0
134

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 23. apríl 2023 10:30

Enski miðillinn The Daily Mail fullyrðir að Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley sæti nú rannsókn fyrir hagræðingu úrslita eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Reading í ensku B-deildinni fyrr í mánuðinum.

Burnley heimsótti Reading þann 15. apríl síðastliðinn og tók Vincent Kompany, þjálfari Burnley, þá ákvörðun að hvíla marga af lykilmönnum liðsins. Á tólf daga tímabili frá 10. apríl hefur Burnley leikið fjóra leiki í ensku B-deildinni og forráðamenn félagsins standa fastir á því leikmenn hafi verið hvíldir til að ráða við þetta mikla leikjaálag.

Burnley hefur nú þegar tryggt sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili, en Reading er hins vegar í fallbaráttu. Það voru því forsvarrsmenn Huddersfield sem vöktu athygli á þessu mikið breytta byrjunarliði Burnley, enda er Huddersfield í harðri fallbaráttu við Reading.

🚨 BREAKING: Burnley under investigation by EFL for potential match fixing in their recent 0-0 draw with Reading.

Clarets facing a points deduction & fine if found guilty.

THIS IS HUGE! 🤯🟣 [Mail] pic.twitter.com/lX9Yke7sQZ

— Barstool Football (@StoolFootball) April 22, 2023 Huddersfield er nú með 44 stig þegar liðið á þrjá leiki eftir, einu stigi meira en Reading sem situr í fallsæti og hefur leikið einum leik meira.

Fari það svo að liðsmenn Burnley verði fundnir sekir gæti liðið þurft að greiða sekt, eða  í versta falli verða stig dregin af liðinu.

Burnley trónir á toppi ensku B-deildarinnar með 92 stig eftir 43 leiki og þarf aðeins tvö stig til viðbótar úr seinustu þremur leikjum tímabilsins til að tryggja sér titilinn.