7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Segja Kristrúnu fara með rangt mál um veiðigjöld

Skyldulesning

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja að veiðigjöld hafi hækkað frekar en lækkað.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja Kristrúnu Frostadóttur frambjóðanda Samfylkingarinnar fara með rangt mál í Fréttablaðinu í dag þar sem hún segir að breytingar á lögum um veiðigjald hafi rýrt veiðigjaldsstofninn.

Þetta kemur fram í tilkynningu SFS.

Í skrifum Kristrúnar sem birtust í Fréttablaðinu í dag undir yfirskriftinni Tækifæri til að breyta kemur fram að:

„Allar niðurstöðurnar á markaði eru pólitískar enda hafa stjórnmálin mikil áhrif  á leikreglurnar sem við spilum eftir.

Eitt dæmi eru breytingar sem gerðar voru á veiðigjaldalögum á yfirstandandi kjörtímabili og rýrðu veiðigjaldastofninn umtalsvert. Sérmeðferð í bókhaldi sjávarútvegsfyrirtækja í formi afskrifta og himinhárra áætlaðra vaxtagjalda, sem eru frádráttarbær og í litlu samhengi við rekstrarumhverfi fyrirtækjanna, er ein af ástæðum þess að ríkið innheimti minna fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni í fyrra en af tóbaksgjaldinu.“

Ekki rétt að breytingar hafi rýrt veiðigjaldastofninn

SFS er ósammála fullyrðingu Kristrúnar að breytingar á veiðigjöldum hafi rýrt veiðigjaldastofninn og telja samtökin hana fara með rangt mál.

„Gjaldið hefði verið umtalsvert lægra á þessu tímabili samkvæmt eldri lögum. Ætlunin var að minnka sveiflur, enda hefðu nýrri og eldri lög skilað sömu niðurstöðu aftur í tímann,“ segir í tilkynningu SFS.

Graf tekið saman af SFS þar sem sjá má veiðigjaldið eins og það hefði verið samkvæmt eldri lögum og veiðigjald eins og það var í raun. Grafið er byggt á heimildum Hagstofu Íslands, Fiskistofu og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Graf/SFS

Vísar SFS í frumvarp sem varð að nýjum lögum um veiðigjöld þar sem stendur meðal annars að „til skemmri tíma kynni reiknistofn veiðigjaldsins að dragast saman vegna aukinnar fyrningar, og með því fastur kostnaður í heild, þar sem lagt er til með frumvarpinu að vaxtagjöld jafngildi fyrningunni hverju sinni. Á móti vegur að með endurnýjun fiskiskipastólsins dragast sumir kostnaðarliðir við veiðiúthald nokkuð saman, einkum olíukostnaður og hugsanlega launakostnaður. Það mun til lengri tíma litið geta styrkt reiknistofn veiðigjaldsins og aukið með því tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi.“

Telur SFS því nokkuð ljóst að veiðigjaldið hafi hækkað, fremur en lækkað. Hafi þá reiknistofninn ekki dregist saman heldur hafi hann verið minni samkvæmt eldri lögum.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir