4 C
Grindavik
7. mars, 2021

Sektir sumarsins fara til Seyðisfjarðar

Skyldulesning

Miklar hörmungar áttu sér stað í vikunni þegar miklar aurskriður féllu í Seyðisfirði. Þær skæðustu féllu síðasta sólarhring og hrifsuðu tíu hús með sér og sluppu einhverjir íbúar naumlega undan skriðunni. Til allrar lukku hafa engar fregnir borist af meiðslum á fólki en eignatjón er gífurlegt.

Tekin var ákvörðun um að rýma Seyðisfjörð í kvöld og er unnið að því að koma íbúum í skjól. Atburðir dagsins hafa reynst íbúum afar þungbærir og mikið áfall.

Íslendingar eru þó oftast þekktir fyrir samstöðu þegar náttúran leiku rokkur grátt og hafa margir boðið fram aðstoð sína til Seyðfirðinga og enn fleiri sent stuðningskveðjur.

Nokkur íslensk knattspyrnulið hafa ákveðið að leggja sitt af mörkum til að hjálpa Seyðfirðingum. Fótbolti.net vakti athygli á þessu í gærkvöldi. Leiknir á Fáskrúðsfirði reið á vaðið og birti færslu á Twitter þar sem greint var frá því að liðið væri búið að styrkja Björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði. Ákveðið var að láta sektarsjóð síðasta sumars renna til björgunarsveitarinnar.

Dalvík/Reynir ákvað þá að fylgja í fótspor Leiknis á Fáskrúðsfirði. „Leikmenn Dalvíkur/Reynis hafa ákveðið að styrkja Björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði og láta sektarsjóð síðasta sumars renna til þeirra. Við sendum baráttukveðjur til ykkar,“ segir liðið á Twitter-síðu sinni.

Leikmenn meistaraflokks kvenna hjá Fjarðabyggð/Hetti/Leikni ákváðu einnig að ráðstafa sínum sektarsjóði til Seyðisfjarðar. „Björgunarsveitin Ísólfur og Rauði Krossinn á Seyðisfirði fengu sinn helminginn hvort eða 89.500 krónur,“ segir liðið í færslu á Facebook.

Innlendar Fréttir