Selenskíj reiður eftir að óhugnanlegt myndband fór í dreifingu – DV

0
80

Volodymír Selenskíj, forseti Úkraínu, er ómyrkur í máli vegna myndbands sem virðist sýna hrottalegt morð rússneskra hermanna á úkraínskum hermanni. Á myndbandinu má sjá þegar fanginn er gerður höfðinu styttri með einhvers konar sveðju eða hníf.

Í ávarpi sem Selenskíj birti á samfélagsmiðlum í dag kallar hann eftir því að leiðtogar heimsins bregðist við myndbandinu.

BBC segir frá því að úkraínska leyniþjónustan, SBU, rannsaki nú myndbandið. Rússnesk yfirvöld hafa einnig fordæmt það sem birtist í myndbandinu en tekið fram að rannsaka þurfi hvaðan myndbandið kemur.

Myndbandið virðist vera tekið upp á farsíma og líklega yfir sumartímann miðað við gróður og annað sem sést í umhverfinu. Hinn myrti er með gulan borða um handlegginn en úkraínskir hermenn hafa gjarnan sést bera slíka borða. Þá sjást böðlarnir með hvítan borða um fótlegginn sem er auðkenni rússneskra hermanna.

Í frétt BBC kemur fram að vangaveltur hafi verið uppi um það á netinu að myndbandið hafi verið tekið skammt frá borginni Kreminna í austurhluta Úkraínu.