Sex ára stúlka skotin eftir að bolti rúllaði inn í garð nágrannans – Myndband – DV

0
77

Hin sex ára gamla Kinsley White segist elska föður sinn og vonar að hann sé heill á húfi eftir að byssumaður skaut hana og föður hennar í vikunni.

Tilefnislausar skotárásir hafa verið tíðar í Bandaríkjunum að undanförnu en á þriðjudagskvöld var hin sex ára gamla Kinsley að leika sér þegar körfubolti rúllaði inn í garð húss skammt frá leikvelli í bænum Gastonia í Norður-Karólínu.

24 ára gamall karlmaður kom út og hóf fyrirvaralaust að skjóta úr skammbyssu sem hann var með á sér. Ein kúlan fór í kinnina á Kinsley og önnur fór í föður hennar, William White, sem er enn á sjúkrahúsi eftir árásina en sem betur fer á batavegi.

WSOC-fréttastofan ræddi við móður Kinsley, Ashley Hilderbrand, eftir árásina og lýsti hún því sem gerðist í viðtalinu. „Hann kom út og horfði á manninn minn og dóttur mína og sagði: „Ég ætla að drepa ykkur.“

Maðurinn hætti ekki að skjóta fyrr en kúlurnar voru búnar og lagði hann á flótta í kjölfarið. Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að maðurinn hafi verið handtekinn í gærkvöldi.