8 C
Grindavik
27. febrúar, 2021

Sherwood lenti í svipuðum hremmingum eins og McClaren gegn Íslandi: „Þetta gæti bitið mig í rassinn“

Skyldulesning

Tim Sherwood sagðist ekki hafa nokkrar áhyggjur af hornspyrnum Liverpool nokkrum sekúndum áður en Roberto Firmino skoraði sigurmark liðsins gegn Tottenham með skalla eftir horn.

Sherwood, sem er fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri Tottenham, var sérfræðingur Amazon Prime í leiknum í gær.

Þegar Liverpool fékk hornspyrnu á lokamínútunni kvaðst Sherwood vera þess fullviss að ekkert kæmi úr henni.

„Annað horn. Ég hef ekki of miklar áhyggjur af því. Það gæti bitið mig í rassinn en ég tel að Tottenham hafi yfirhöndina í loftinu. Ég er ekki viss um að nokkur Liverpool-maður verði fyrstur á boltann,“ sagði Sherwood sem var varla búinn að sleppa orðinu þegar Firmino stangaði boltann í netið og tryggði Liverpool sigurinn.

Hinir sérfræðingar Amazon Prime, eins og Robbie Savage, gátu ekki varist hlátri eftir að spádómur Sherwoods gekk alls ekki eftir.

Atvikið minnti um margt á svipað atvik frá leik Íslands og Englands á EM 2016. Steven McClaren talaði þá um hversu litla hættu Íslendingar sköpuðu rétt í þann mund sem Kolbeinn Sigþórsson skoraði sigurmark íslenska liðsins.

Með sigrinum í gær náði Liverpool þriggja stiga forskoti á Tottenham á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Næsti leikur Liverpool er gegn Crystal Palace í hádeginu á laugardaginn.

Innlendar Fréttir