Sigraður Hamilton lætur stór orð falla Aron Guðmundsson skrifar 6. maí 2023 13:00
Lewis Hamilton, sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og ökumaður Mercedes segir það þungt högg í magann að sjá hversu langt á eftir Mercedes er í slagnum við Red Bull Racing.
Keppt er í Miami í Bandaríkjunum þessa helgina og eftir fyrstu æfingu gærdagsins, þar sem bílar Mercedes voru hraðastir, tók raunveruleikinn við á seinni æfingu dagsins þar sem liðið var tæpri sekúndu á eftir Red Bull.
„Við erum ekki hraðir og eigum í fullu fangi þarna úti,“ sagði brúnaþungur Hamilton í samtali við Sky Sports eftir fyrstu æfingarnar í Miami.
Mercedes sé að prófa mismunandi útfærslur á stillingu bílsins en er enn langt á eftir Red Bull Racing sem hefur borið höfuð og herðar yfir keppinauta sína á yfirstandandi tímabili.
„Þetta er þungt högg í magann og erfitt að taka þessu en þetta verður í lagi. Við vinum leggja höfuðið í bleyti og reyna að finna lausnir.
Ég er að reyna vera bjartsýnn og er að leggja mikið á mig en við erum bara að deyja hérna. Okkur vantar sárlega uppfærslur á þennan bíl.“
Tímatökurnar í Miami fara fram í kvöld og sjálf keppnin fer fram annað kvöld.