Sigurjón býður upp á fjölskylduvænan og ljúffengan páskamatseðil og sviptir hulunni af nýjustu fréttunum – DV

0
204

Sigurjón Bragi Geirsson matreiðslumeistari og landsliðskokkur hefur slegið í gegn fyrir matargerð sína á landsvísu sem og á erlendri grundu. Hann hefur keppt með íslenska Kokkalandsliðinu og náð undraverðum árangri auk þess em hann tók þátt í stærstu og virtustu matreiðslukeppni í heiminum Bocused´Or í Lyon í byrjun árs og hlaut áttunda sætið sem er mjög flottur árangur á heimsmælikvarða. Spennandi tímar eru framundan hjá Sigurjóni en hann og félagi hans standa í stórræðum og eru að opna nýja veisluþjónustu.

Sigurjón er annálaður fyrir sína einstöku matargerð og hefur hann galdrað fram ófáa sælkeraréttina sem hafa fengið mikið lof fyrir bragð, áferð og útlit. Sigurjón er vandlátur á hráefnið og finnst allra skemmtilegast að vinna með árstíðabundið hráefni sem hann fær beint frá birgja.

Sigurjón býður hér upp á fjölskylduvænan og ljúffengan páskamatseðil sem allir ættu að ráða við og steinliggur í páskafríinu. Þegar Sigurjón er heima finnst honum eitt það skemmtilegasta sem hann gerir að njóta tímans með fjölskyldunni og hafa matargerðina einfalda og velja rétti sem börnin elska mest.

„Þar sem það er oft mikið að gera á stóru heimili reyni ég að hafa matinn sem einfaldastan á kvöldin, ég og konan mín erum bæði í fullri vinnu og með 3 börn svo það er aldrei lognmolla á heimilinu og er þá best að geta gert góðan og fljótlegan mat,“ segir Sigurjón.

Okkar eigin veisluþjónusta – Flóra Veisluþjónusta

Matreiðsla hefur ávallt heillað Sigurjón og eftir að hafa keppt fyrst í faginu var ekki aftur snúið. „Ég hef alltaf heillast af matreiðslu og eftir að hafa orðið alveg dolfallinn fyrir faginu fór ég að keppa sjálfur og sigraði Kokkur ársins 2019 og stýrði Kokkalandsliðinu 2019-2020 þar sem við enduðum í þriðja sæti á Ólympíuleikunum. Eftir að hafa keppt í stærstu og virtustu matreiðslukeppni í heiminum Bocused´Or ákvað ég og Sindri Guðbrandur Sigurðsson, sem er nýkrýndur Kokkur ársins 2023 að opna okkar eigin veisluþjónustu sem ber nafnið Flóra Veisluþjónusta. Höfum við fengið alveg frábærar móttökur og ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni.“

Pönnukökurnar hjá ömmu

„Mín ástríða í matargerð tengist mjög mikið hráefninu sem er í kringum okkur og hvaða árstíð er. Mín uppáhalds árstíð er sumarið og haustið þar sem þá er mesti möguleikinn er að fá geggjað hráefni beint frá birgja. Einnig eru íslensku pönnukökurnar í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég fékk ávallt nýbakaðar pönnukökur hjá ömmu minni í Stykkishólmi þegar ég kom í heimsókn þangað,“ segir Sigurjón dreymin á svip þegar pönnukökurnar ber á góma.

Hér má sjá páskamatseðilinn hans Sigurjóns:

Skírdagur – Kjúklingur og pasta

„Alltaf gott að byrja páskana á kjúkling og pasta og slær pasta Alfredo alltaf í gegn, þægilegt líka með krakkana þar sem þeir elska yfirleitt pasta.“

Sjá uppskrift hér.

Föstudagurinn langi – Ljúffeng bleikja

„Gott að starta þungri helgi á geggjaðri bleikju, svo það er ekki bara þungur matur um helgina.“

Sjá uppskrift hér.

Laugardagur  – Burrata pitsa

„Þar sem við fjölskyldan elskum ítalskan mat er upplagt að hafa pitsu á laugardaginn og gera vel við sig með burrata, íslenskum tómötum og toppa með ferskum basil.“

Sjá uppskrift hér.

Páskadagur – Hin fullkomna sunnudags steik grillað ribeye

„Ég ólst upp við að það væri alltaf steik á sunnudögum svo við hendum í grillað ribeye.“

Sjá uppskrift hér.

Annar í páskum – Vöfflur toppaðar með andalæri eða kjúkling

„Ég geri alltaf bröns fyrir fólkið mitt og þá er tilvalið að henda í vöfflur með kjúkling eða andalærum eins og fylgir með hér, svo eru bara afgangar um kvöldið eftir mikla matarhelgi.“

Sjá uppskrift hér.

Gleðilega páska.