Síldarvinnsluskipin komin með 15 þúsund tonn

0
8

Börkur NK landaði 1.400 tonnum af íslenskri sumargotssíld í gærkvöldi. mbl.is/Börkur Kjartansson

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar hafa landað um 15 þúsund tonnum af íslenskri sumargotssíld á árinu og hefur megnið af síldinni veiðst vestur af landinu, en einnig hefur fengist nokkur íslensk sumargotssíld með norsk-íslenskri síld austur af landinu, að því er segir í færslu á vef Síldarvinnslunnar.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.400 tonn af íslenskri sumargotssíld sem veiddist á miðunum vestur af landinu og hófst þá vinnsla í fiskiðjuveri útgerðarinnar.

„Það er fallegasta síld, svipuð og verið hefur. Síldin er 290-310 grömm. Við vorum að veiða norðarlega á Látragrunnskantinum, en það er norðar en veitt hefur verið undanfarin ár vestur af landinu. Aflinn fékkst í fjórum holum. Þetta voru þrjú um 400 tonna hol og eitt 150 tonna. Veiðin gekk bara ljómandi vel,“ segir Ólafur Gunnar Guðnason, stýrimaður á Berki, í færslunni.