-1 C
Grindavik
23. nóvember, 2020

Símalaus sunnudagur í dag

Skyldulesning

Óhófleg notkun á snjalltækjum getur meðal annars haft áhrif á …

Óhófleg notkun á snjalltækjum getur meðal annars haft áhrif á samskipti innan fjölskyldunnar.

Barnaheill hvetja fólk til að prófa símalausan sunnudag í dag, 15. nóvember. Markmið dagsins er að vekja foreldra og annað fullorðið fólk til umhugsunar um áhrif snjallstækja á samveru og nánd innan fjölskyldna. 

Snjallsímar og önnur snjalltæki eru skemmtileg og gagnleg tæki sem hafa umbylt því hvernig við eigum í samskiptum, nálgumst upplýsingar og verjum tíma okkar. Í mörgum tilvikum eru áhrif tækninnar jákvæð og sniðug en einnig hefur verið bent á skuggahliðar hennar. Óhófleg notkun á snjalltækjum getur meðal annars haft áhrif á samskipti innan fjölskyldunnar –samskiptin og nándin minnka því það er eitthvað annað sem stelur athyglinni.

Í dag eru landsmenn hvattir til að leggja frá sér símann og önnur snjalltæki í 12 klukkustundir, frá 9 til 21.

„Upplifum ævintýrin saman“

Með uppátækinu vilja Barnaheill vekja foreldra og annað fullorðið fólk til umhugsunar um snjalltækjanotkun innan heimilisins og þau áhrif sem tækin geta haft á samverustundir fjölskyldunnar. Yfirskrift átaksins er: „Upplifum ævintýrin saman“ til að minna á þau ævintýri sem geta falist í samverustundum foreldra og barna þegar síminn er hvíldur um stund.

„Það er líklegt að á tímum kórónuveirunnar séum við mörg sem verjum enn meiri tíma í að horfa á og leika við skjái,“ er haft eftir Kolbrúnu Pálsdóttur, verkefnastjóra kynningarmála hjá Barnaheillum í tilkynningu.

„Það er skiljanlegt enda er mikið af þeirri afþreyingu sem við erum vön að geta nýtt okkur nú tímabundið ekki í boði. Í mörgum tilvikum áttum við okkur ekki á hvaða áhrif þessi neysla hefur á samskipti fjölskyldunnar. Í rannsóknarskyni getur því verið forvitnilegt að leggja alveg frá sér símann þó ekki sé nema í 12 klukkustundir. Mögulega uppgötvum við að án símans bíða okkar ævintýri með börnunum sem við færum annars á mis við. Í því felst einfaldlega áskorun okkar hjá Barnaheillum um símalausan sunnudag.“

Hægt er að skrá sig til leiks á simalaus.is og taka áskorun Barnaheilla. 

Innlendar Fréttir