Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir í samtali við mbl.is að sambandinu hafi yfirsést afleiðingar breyttra reglna um hæfi kjörstjórnarmanna er kosningarlögin voru í umsagnarferli.
Kosningalögin voru samþykkt á síðasta þingi og tóku gildi um áramótin. Reynir því í fyrsta skipti á þau í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Fulltrúi í kjörstjórn má ekki eiga maka, fyrrverandi maka, núverandi eða fyrrverandi sambýlismann eða -konu, foreldri, barn, systkin, mág eða mágkonu sem eru í framboði. Þá ná nýju reglurnar líka yfir systkinabörn, barnabörn, afa, ömmu og systkini foreldra.
„Ég verð bara að viðurkenna að afleiðingar þess fóru framhjá okkur. Það voru einhver sveitarfélög sem gerðu athugasemdir en í umsögn sambandsins þá hefur þetta farið framhjá okkur, að þetta myndi hafa svona mikil áhrif,“ segir Aldís.
Út fyrir ákvæði sveitarstjórnarlaga
Hún segir það ekki vera spurningu að það þurfi að breyta lögunum.
„Það þarf að taka þetta til endurskoðunar. Þetta er alltof víðtækt,“ segir Aldís og nefnir til dæmis að í Reykjavík séu hátt í 500 manns í framboði sem þýði að vanhæfið verði svo víða.
Þá hafi þetta einnig mikil áhrif í smærri sveitarfélögum þar sem færri búa.
„Þetta er komið langt út fyrir þau ákvæði sem sett voru í sveitarstjórnarlögum,“ segir hún og bætir við að í sveitarstjórnarlögum séu tilgreind ákvæði um vanhæfi.
„Þetta gengur miklu lengra heldur en þau lög. Við verðum auðvitað að taka það til endurskoðunar og ræða við dómsmálaráðuneytið.“