Sjáðu þegar Patrik sleit krossbandið og var refsað – Vísir

0
82

Íslenski boltinn

Sjáðu þegar Patrik sleit krossbandið og var refsað Patrik Johannesen spilar ekki meira á þessari leiktíð eftir að hafa slitið krossband í hné. Vísir/Hulda Margrét Annað tímabilið í röð hefur Breiðablik misst út sóknarmann vegna krossbandsslita í hné og ljóst er að færeyski landsliðsmaðurinn Patrik Johannesen spilar ekki meira í Bestu deildinni í sumar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, staðfesti við Fótbolta.net í dag að Patrik væri með slitið krossband.

Patrik meiddist í leik gegn Stjörnunni á dögunum eftir að hafa reynt að ná boltanum af Eggerti Aroni Guðmundssyni. Patrik var raunar dæmdur brotlegur og fékk í refsingarskyni að líta gula spjaldið á meðan hann var studdur af velli. Atvikið var skoðað í Stúkunni í síðustu viku en þá var ekki orðið ljóst hve alvarleg meiðslin eru.

Klippa: Patrik sleit krossband í hné

Ljóst er að um mikið áfall er að ræða fyrir Blika en Patrik var keyptur frá Keflavík í vetur, eftir að hafa skorað tólf mörk í 22 leikjum í Bestu deildinni í fyrra. Þessi 27 ára gamli leikmaður var í byrjunarliði Færeyja í leik gegn Moldóvu í undankeppni EM í mars.

Fyrir tímabilið í fyrra fengu Blikar framherjann Pétur Theodór Árnason frá Gróttu og Venesúelabúann Juan Camilo Pérez, og höfðu þeir báðir slitið krossband í hné í febrúar, áður en tímabilið hófst. Það kom þó ekki í veg fyrir að Blikar næðu að landa Íslandsmeistaratitlinum.

Mest lesið
Fleiri fréttir Sjá meira Mest lesið