4 C
Grindavik
25. febrúar, 2021

Sjö sekúndur

Skyldulesning

Það er skrifað í skýin að á stjörnuhimninum búi hinn óendanlegi möguleiki og þegar við fæðumst í þennan heim þá höfum við aðgang að þeirri vitneskju, sama hvaða bás örlögin marka.

Það er engin tilviljun hvar við fæðumst og það ætti engin að láta lífið renna hjá án þess að fylgjast með skýjunum á ferð þeirra um himininn og þegar þau draga frá stjörnubjörtum himninum. Með því að horfa ekki beint á stjörnurnar heldur fram hjá þeim sjáum við lengra, -til fleiri stjarna.

Ég sagði frá því hér á síðunni fyrir stuttu að ég hefði farið að leita að bók daganna niður í geymslu, þeirri sem ég skrifaði í landinu helga. Þangað fór ég ekki sem ferðamaður heldur sem steypukall um nokkurra vikna skeið á árunum 1997 og 1998.

Það yrði allt of löng saga að segja frá því hvers vegna, en ég ætla að leifa sjö sekúndum að lifa hér á síðunni í tilefni aðventunnar. 

0 – 0 – 0

Nasaret heimabær frelsarans. Skyldi Jósef hafa verið með trésmíðaverkstæðið sitt hérna við götuna, á hæðinni fyrir ofan miðbæinn. Það er allavega trésmíðaverkstæði hérna hinumegin við götuna.

Nasaret arabísk borg með bílaumferð nútímans. Laugardagur hvíldardagur gyðinga, en arabarnir í Nasaret gefa lítið fyrir hann, fólk í vinnu, fólk á ferðinni milli búða. Aðalgatan drullusvað eftir rigningarskúri morgunsins. Gatnakerfið hlýtur að verða stórmál i næstu borgarstjórnarkosningum eða var það kannski síðast. Allt sundurgrafið, vinnuvélar, bílar og gangandi fólk í for aðalgötunnar. Maríukirkjan gnæfir yfir en er þó í kafi arabískrar byggingalistar.

Sólin skín inn í bílinn á milli rigningarskúranna, rúðan skrúfuð niður, úti glymur arabísk alþýðutónlist, -hver með sitt lag í sinni búð. Í útvarpinu er kunnuglegt lag með enskum texta „when child is born in to this world, , , ,“ konur og karlar á gangi í forinni, sum í kyrtlum með þjóðlegan höfuðbúnað, aðrir klæddir að vestrænum hætti, -eða bara í bland. Strákur berfættur í sandölunum öslar drullusvaðið yfir götuna, , , „seven seconds, seven seconds away, , ,“. Verðlag lágt enda tilkostnaður í lágmarki. Í búðinni eru ólívurnar í blárri plasttunnu eins og síldin heima, hnetur og korn í sekkjum selt eftir vigt, að sjálfsögðu er Coca Cola í kjæli og í dós á heimsmarkaðsverði.

Betlarar, götusalar og fallegar konur, töfrar mannlífsins hvert sem litið er. Hliðið læst að Maríukirkjunni. Á gatnamótunum fyrir neðan kirkjuna við aðalgötuna rótast grafa við niðurbrotið hús sem stendur út í miðja götuna en á horninu sem snýr að aðalgötunni stendur þó hluti hússins uppi, þar er rekinn veitingastaður með glæsibrag. Uppstrýlaður arabahöfðingi skeggræðir málin við vegagerðarmennina. Ég ákvað að taka mynd af Helga hér, þar sem eitthvað var um að vera frekar en fyrir framan lokað hlið kirkjunnar. Við setjumst upp í bílinn og mjökumst út úr borginni hennar Maríu. Við taka gyðingabyggðir Galíleu á sabbats degi, þaulskipulagðar í lífvana helgi hvíldardagsins.

Við Galíleuvatn í frelsarans slóð. Hérna! akkúrat hérna, mettaði Jesú 5000 með fimm brauðum og tveimur fiskum. Brekkurnar upp af strönd vatnsins með sínum villta gróðri eins og þá, friðsæll staður. Einhverjum hafði dottið í hug að byggja kirkju nákvæmlega á þeim stað sem hann braut brauðin og planta trjám allt í kring þannig að ekki sést lengur upp í brekkurnar. Eins og það hafi verið til bóta. Fáir ferðamenn enda ástandið í landinu viðkvæmt eins og stundum áður. Maður og kona á hraðferð í leigubíl með vídeóvél hún með myndavél, hálf rúta af Frökkum og ein af Indverjum. „Sennilega myndi þessi trjálundur hverfa eins og aðrir skógar heimsins ef allir Indverjar tæku upp á að skeina sig, samkvæmt kenningu Gumma“ skýtur Helgi inn í þegar ég er í miðju kafi að lýsa því hve slæmt sé að hafa ekki útsýni upp í brekkurnar eins og þá, einmitt frá þessum stað.

Kapernaum, heimabær Péturs postula.Samkunduhúsið þar sem lamaði maðurinn var látinn síga niður í gegnum þakið og kraftaverk unnið í mannþrönginni. Ég fæ Helga til að taka mynd af mér hér, sem er þó alls ekki sama samkunduhúsið og kraftaverkið gerðist í, uppgröftur gömlu Kapernaum er metir fyrir neðan. Ólýsanleg friðsæld og fáir ferðamenn, þó eru Frakkarnir og Inverjarnir að koma auk þess Þýskur og Amerískur hópur með tveimur nunnum. Hjónin á leigubílnum eru að renna í hlað. Ég lít í augun á leigubílstjóranum sem er sá sami og keyrði okkur Halla í apríl í fyrra. Þegar við bentum honum á að vara sig á því að börn væru að leik við þröngan veginn sagði hann; „hafið ekki áhyggjur ég er vel tryggður“. Maður gleymir ekki þeim sem eru óragir við að vitna í guðspjöll nútímans.

Gólanhæðir norðaustan við Galíleuvatn. Svart grjót og öræfi allt upp í mót. Þoka, súld og hrjóstrugt land, skyldi ég vera fyrir austan. Allavega er Sýrland einhversstaðar þarna fyrir austan úti í dimmri þokunni. Þrjátíu, fjörutíu, fimmtíu skriðdreka fylki um víð og dreif undir seglum í felulitunum með hlaupin niður, bíða þess að það komi tímar. Rústir þorpsins í þokunni við veginn, skólin, húsin, moskan allt sundur skotið eða niður sprengt, áður Sýrlenskt land. 

Ekið niður Gólan eftir austurströnd Galíleuvatns, bananaekrur, kókospálmalundir, appelsínuakrar, tómir sumarbústaðir, orlofsstaðir gyðinga. Ætli þeir komi hingað til að njóta helgi hvíldardagsins, eða ætli þeir sitji bara heima og jafni sig eftir plott vikunnar. „Bíddu við misstum við ekki af krókódílabúgarðinum og hvar er áin Jórdan við fórum einhversstaðar yfir hana“; segir Helgi og stoppar til að skoða kortið.

„Helgi hefurðu tekið eftir því að frá arabaþorpunum liggur aðeins troðningur að hraðbrautinni og þeir verða að skjóta sér inn á hana þá sjaldan færi gefst, en frá gyðingabyggðunum eru góðir vegir, umferðaljós og aðreinar svo allt gangi smurt inn á sömu hraðbraut“. Arabar annars flokks íbúar í sinni Palestínu, sem er Ísrael hinnar útvöldu þjóðar og landi helga í hugum okkar hinna.

 

Ps. Þessi dagur var færður til bókar daganna 14. febrúar 1998 og hefur áður birst í Austra þá í frelsarans slóð.


Fyrri fréttEg vaknaði furðulega í morgun
Næsta fréttWow

Innlendar Fréttir