Sjötug kona sagði Zelenskí myndarlegan og það reyndist henni dýrkeypt – „Þú hefur engan rétt á að hrósa honum“ – DV

0
91

Sjötug rússnesk kona var ákærð fyrir að ófrægja rússneska herinn, með því að kalla forseta Úkraínu myndarlegan. 

Dómstóll hefur gert konunni að greiða um 70 þúsund króna sekt vegna þessara ummæla, sem hún lét falla í desember.

Olga Slegina var stödd á heilsuhæli í Nalchik. Kvöld eitt var hún á veitingastaðnum á hælinu þegar hún heyrði aðra konu kalla forseta Úkraínu, Volodimír Zelenskí, ófríðan. Olga ákvað að bregðast við þessu, enda ósammála, og sagði að Zelenskí væri myndarlegur ungur maður með gott skopskyn og áður fyrr hefðu flestir hlegið af bröndurum hans.

Síðan hafi Olga spurt sessunaut sinn, sem bjó í nágrenninu, hvort að Úkraínumenn á svæðinu væru gjarnir á að hrópa: „Dýrð sé Úkraínu“ líkt og þeir geri í Moskvu.

Olga hugsaði svo ekkert meira út í þessar stuttu samræður þar til nokkrum dögum síðar þegar lögreglan bankaði á dyrnar hjá henni. Þá kom á daginn að ummæli hennar um Zelenskí höfðu verið tilkynnt til lögreglunnar og var hún nú grunuð um að hafa ófrægt rússneska herinn með því að lýsa yfir stuðningi við Úkraínu.

Reyndi Olga að skýra málið út fyrir lögreglunni. Hún hefði aðeins verið að tala um útlit Zelenskís en ekki um stríðið eða herinn.

Lögreglumaðurinn sagði þá: „Þú hefur engan rétt á að hrósa honum því hann er óvinur okkar.“

Skrifaði undir skjal sem hún gat ekki lesið Í kjölfarið var Olga svo dreginn óviljug upp á lögreglustöð. Var slíku offorsi beitt að hún náði ekki að taka með sér nauðsynleg lyf. Á lögreglustöðinni upplifði hún að starfsmenn þar væru óvinveittir sér. Lögreglumaður gekk hart að henni að afhenda þeim símann en þegar hún neitaði fékk hún umsvifalaust loforð um að ef hún yrði ekki við þessari skipun þá yrði hún handtekin og haldið í fangaklefa í fimmtán daga.

Olga gat ekki hugsað sér slíkt svo hún afhenti símann. Ekki fann lögreglan neitt misjafnt þar, en engu að síður var málinu haldið til streitu.

Áður en Olga fékk að yfirgefa lögreglustöðina var henni gert að skrifa undir skjal. Olga glímir við skerta sjón svo hún gat ekki lesið. Hún skrifaði þó undir þar sem hún gat ekki hugsað sér að lengja dvöl sína á lögreglustöðinni þar sem illa var komið fram við hana.

Ranglega haft eftir henni Þegar málið fór fyrir dóm kom á daginn að í umræddu skjali var ranglega haft eftir Olgu. Þar sagði að Olga hefði hrópað á veitingastaðnum „Dýrð sé Úkraínu“ og opinskátt rætt um óbeit sína á stríðsrekstrinum.

Þjóninn sem starfaði á veitingastaðnum bar vitni í málinu og sagði að Olga hefði tautað „Dýrð sé Úkraínu, Zelenskí er gull af manni, hann mun drottna yfir öllu og Rússland verður „á rassgatinu“.“

Olga mótmælti því og benti á að hún og þjónninn hefðu átt í útistöðum í aðdraganda samtalsins örlagaríka.

Dómarinn í málinu hafði þó enga samúð með Olgu. Virtist líta á hana sem hálfvitlausa fyrir að kvitta á skjöl sem hún hafði ekki lesið og eins fyrir að koma sér undan því að vera viðstödd í dómsal með því að vísa til bágrar heilsu. Vissulega væri Olga öldruð en hún væri full fær um að ganga og slæm sjón og háþrýstingur væri því ekki til fyrirstöðu að mæta fyrir dóm. Orðaði dómarinn þetta með slíkum hætti að viðstöddum gat ekki dulist að hún væri óvinveitt Olgu og teldi lítið til varna hennar koma.

Fór svo á endanum að Olgu var gert að greiða 70 þúsund króna sekt. En hún mun ætla að áfrýja þeirri niðurstöðu.

Mannréttindasamtökin Memorial greina frá