Meginstarfsemi Skeljungs, sem hingað til hefur verið verslun með bensín og olíu, mun dragast verulega saman í nákominni framtíð. Því sé ekki útilokað að leitast verði við að víkka tilgang félagsins. Þetta kemur fram í svörum Strengs við spurningum hluthafa Skeljungs, sem birt voru í gærkvöldi.
Strengur ráðgerir einnig að bjóða valdar rekstrareiningar, fasteignir og lóðir Skeljungs til sölu en líkt og mbl.is hefur áður fjallað um hefur Strengur gert yfirtökutilboð í Skeljung.
Félögin þrjú, sem munu leggja hluti sína inn í nýtt félag sem heitir Strengur, eru RES 9, 365 og RPF.
RES 9 er í eigu RES II sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Arngrímsdóttur. 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, en eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, er stjórnarformaður Skeljungs og varamaður í stjórn 365. RPF er í jafnri eigu Loran ehf., sem er í eigu Þórarins A. Sævarssonar, sem er stjórnarmaður í Skeljungi, og Premier eignarhaldsfélags, sem er í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar.
Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar munu RES 9 og 365 eiga hvort sinn 38% hlut í Streng, en RPF verður með 24% hlut.
Efnahagsreikningur Skeljungs minnkar töluvert
Í svörum Strengs kemur einnig fram að félagið stefni að því að afskrá Skeljung úr Kauphöll Íslands. Auk þess stefnir félagið á að efnahagsreikningur Skeljungs muni minnka töluvert á næstu þremur árum.
Í ljósi vilja Reykjavíkurborgar til að fækka bensínstöðvum ætlar Strengur sér að reyna að selja lóðir félagsins þar sem talið er að sala skili hærra virði fyrir Skeljung en að halda stöðvum áfram í rekstri. „Í kjölfarið má gera ráð fyrir að félagið verði smærra í sniðum og eignaléttara. Vilji tilboðsgjafa er að starfsemin verði betur í stakk búin til að mæta hörðum breytingum sem fylgja orkuskiptum á næstu árum.“
Bætir Strengur einnig við að í kjölfar tilkynningar ríkisstjórnar Íslands frá 10. desember síðastliðnum um ný og metnaðarfull markmið í lofslagsmálum telji félagið að mikilvægt sé að nauðsynlegar breytingar nái fyrr fram að ganga en ella, enda muni áskoranir Skeljungs hvað varðar orkuskipti jafnvel raungerast fyrr en talið var.