3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

Skilur vel að efast sé um framtíð hans

Skyldulesning

David Luiz, Joe Willock og Mikel Arteta ganga af velli …

David Luiz, Joe Willock og Mikel Arteta ganga af velli á Goodison Park í gær eftir tapið gegn Everton.

AFP

Mikel Arteta, hinn spænski knattspyrnustjóri Arsenal, kveðst skilja vel þá umræðu sem er í gangi um framtíð hans í starfi en Lundúnaliðið hefur aðeins fengið tvö stig í síðustu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Raddir um að dagar Spánverjans séu senn taldir hjá Arsenal verða sífellt háværari en Edu, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, lýsti því yfir á dögunum að staðið væri þétt við bak stjórans og hann væri á réttri leið með liðið. Slíkar yfirlýsingar hafa þó oft verið kallaðar „koss dauðans“ en oftar en ekki eru knattspyrnustjórar reknir í kjölfar þeirra.

„Ég skil vel þau spurningarmerki sem sett eru um mína framtíð hjá félaginu. Öll mín orka og einbeiting hefur farið í að reyna að koma liðinu úr þessari stöðu og halda liðsandanum góðum, þannig að strákarnir leggi sig alla fram í hverjum leik. Það gera þeir, og því er ekki hægt að bera á móti,“ sagði Arteta við goal.com eftir tapið gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton í gær, 2:1.

„Enn einu sinni náðum við ekki hagstæðum úrslitum og það er það sem við erum að reyna að snúa við þessa dagana,“ sagði Arteta.

Arsenal er í 15. sæti deildarinnar og fær Chelsea í heimsókn á öðrum degi jóla en á síðan útileiki gegn Brighton og WBA um áramótin.

Innlendar Fréttir