5.3 C
Grindavik
24. september, 2021

Skima leikskólabörn fyrir berklum

Skyldulesning

Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ kemur fram að foreldrar barna á …

Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ kemur fram að foreldrar barna á viðkomandi deild hafi verið upplýstir um málið og börn og starfsfólk deildarinnar hafi verið boðuð í berklapróf.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börn og starfsmenn einnar deildar Leikskóla Seltjarnarness eru nú skimuð fyrir berklum eftir að grunur um berklasmit kom upp hjá einstaklingi í leikskólanum. Ekki er vitað hvort smit hjá viðkomandi hafi verið staðfest. Rannsóknir á þeim sem skimuð hafa verið hafa hingað til reynst neikvæðar. 

RÚV greindi fyrst frá.

„Göngudeild sóttvarna er miðstöð berklavarna og sér um smitrakningu ef grunur vaknar um berklasmit hjá einstaklingum. Hér á göngudeildinni gerum við að staðaldri athuganir á hælisleitendum og þeim sem eru að sækja um atvinnu og koma frá ákveðnum löndum. Þetta er bara rútína hjá okkur og hefur alltaf verið. Ef vaknar grunur um berklasmitaðan einstakling á Landspítalanum annast göngudeild sóttvarna frekari rakningu á mögulega smituðum einstaklingum því tengdu,“ segir Þórir B. Kolbeinsson, yfirlæknir á göngudeild sóttvarna í samtali við mbl.is.  

„Það sem gerðist núna er að við fengum beiðni frá Landspítalanum um að gera berklarakningu vegna einstaklings sem þeir eru með í rannsókn og er grunur um að sé með berkla. Það tengist sem sagt einni deild á leikskóla Seltjarnarnes. Það er bara hluti af því sem við erum að skoða í tengslum við það dæmi í ágætu samstarfi við skólayfirvöld þar.“ 

Grunur um berklasmit vaknar reglulega

Ástæðan fyrir því að skimun fer einungis fram hjá börnum og starfsfólki einnar deildar er sú að deildin er í sérstöku húsnæði sem er aðskilið frá hinum hluta leikskólans þannig að það hefur ekki verið neinn samgangur þar á milli. 

„Það er þannig að þegar grunur vaknar fer þetta úrvinnslukerfi í gang. Þá byrjum við að vinna með þá sem gætu hafa verið í nánum samskiptum við viðkomandi,“ útskýrir Þórir.  

Nokkrum sinnum á ári vaknar grunur um berklasmit hér á landi.  Til einföldunar má segja að oftast veldur  berklabakterían annars vegar sýkingu í lungum og hins vegar því sem kallað er „sofandi“ berklar.

„Þetta er sama berklabakterían en sofandi berklabakterían getur leynst í líkamanum um langt skeið og þarf ekkert endilega að þróast út í berkla heldur getur jafnvel horfið af sjálfu sér. Berklar sem eru í lungum eru hins vegar yfirleitt mun líklegri til að valda smiti. Almennt má segja að göngudeild sóttvarna annast þá sem eru með sofandi berkla en smitsjúkdómalæknar Landspítalans annast meðferð þeirra sem taldir eru vera með smitandi berkla,“ segir Þórir.  

Allar athuganir neikvæðar

Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ kemur fram að foreldrar barna á viðkomandi deild hafi verið upplýstir um málið og börn og starfsfólk deildarinnar hafi verið boðuð í berklapróf. 

Samkvæmt okkar upplýsingum frá smitsjúkdómalækni, sem heldur utan um málið, hafa allar athuganir komið neikvætt út og ekki er talin ástæða til að hafa áhyggjur af smiti að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni og jafnframt:

„Innan leikskólans hefur verið unnið í samræmi við leiðbeiningar frá smitsjúkdómalækni og það hefur verið skýrt frá upphafi að ekki sé talin ástæða til þess að þetta hafi frekari áhrif á starfsemi leikskólans. Foreldrum allra barna í Leikskóla Seltjarnarness hefur þegar verið send tilkynning til upplýsinga.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir