Skósveinn Pútíns

0
100

Árið 2008 flutti Alexey Nikiforov, 23 ára rússneskur efnaverkfræðingur, til Kaupmannahafnar. Hann hafði þá fyrir skömmu lokið verkfræðinámi í  Moskvu, með góðum vitnisburði og hafði fengið inngöngu í doktorsnám við Danska tækniháskólann, DTU. Alexey sóttist námið vel og þegar hann hafði lokið doktorsnáminu bauðst honum tímabundin staða rannsóknaprófessors við skólann. Hann sagði samstarfsfólki sínu við DTU að hann hygðist ekki flytja aftur til Rússlands, sér líkaði vel í Danmörku.

Að sögn samstarfsfólks Alexey var hann vinnusamur og tók þátt í skemmtunum á vegum starfsmanna. Var meðal annars í hljómsveit með vinnufélögunum. Dagsdaglega var hann rólyndur og tranaði sér ekki fram. Alexey lagði sig fram um að ná valdi á dönskunni, sem hann talaði fljótlega reiprennandi, hann kynntist danskri konu, þau eignuðust barn og bjuggu í nágrenni Kaupmannahafnar. 

Árið 2014 lærði hann að spila á domru (stundum kölluð rússnesk lúta) og gerðist félagi í balalækuhljómsveit. Hann mætti vel á æfingar og lét sig aldrei vanta þegar sveitin var fengin til að koma fram við margvísleg tækifæri. Nina Pavlovksi, sem er í hljómsveitinni, fékk það hlutverk að setja Alexey inn í hlutina, eins og hún orðaði það, þegar hann gekk til liðs við sveitina. Hún sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að Alexey hafi verið viðkunnanlegur, frekar til baka án þess þó beint að vera feiminn. 

Rólyndur maðurDagsdaglega var Alexey rólyndur og tranaði sér ekki fram. Hann lagði sig fram um að ná valdi á dönskunni, sem hann talaði fljótlega reiprennandi, hann kynntist danskri konu, þau eignuðust barn og bjuggu í nágrenni Kaupmannahafnar.

Breyting  Nina Pavlovski segir að svo hafi skyndilega eitthvað breyst. Alexey fór að koma of seint á æfingar og hann virtist oftast illa undirbúinn. Hann var mjög upptekinn af símanum, sem hann skildi aldrei við sig. Hann lét, að sögn Ninu Pavlovksi, símann ætíð standa á nótnaborðinu og virtist þurfa að fylgjast vel með einhverju sem birtist á skjánum, hvað það var vissu aðrir í hljómsveitinni ekki.

Nina Pavlovski sagði í áðurnefndu viðtali að fleiri en hún hefðu tekið eftir þessari breytingu en það hefði aldrei sér vitanlega verið rætt sérstaklega. Alexey hefði aldrei verið sérlega opinskár varðandi sína persónulegu hagi, en það gilti reyndar um marga. 

Nýtt starf Í maí 2019 fékk Alexey starf hjá fyrirtækinu SerEnergy (sem síðar sameinaðist Advent Technologies) í Álaborg. Hann bjó þó áfram í nágrenni Kaupmannahafnar en hafði herbergi í Álaborg. Samdi um að skila fimm daga vinnuviku á fjórum dögum. Hann hélt jafnframt áfram að stunda rannsóknir hjá DTU og spila í balalækuhljómsveitinni. „Önnum kafinn maður,“ sagði hann einhverju sinni þegar vinnufélagi hans í Álaborg ræddi við hann.

SerEnergy fyrirtækið vinnur að margvíslegri þróun og framleiðslu á raforku úr metanóli og fleiru sem tengist orkuskiptunum (den grønne omstilling). Fyrirtæki víða um heim keppast nú við að þróa nýja tækni varðandi orkuframleiðslu og mikil leynd hvílir gjarnan yfir þeirri starfsemi sem fram fer innan veggja þeirra.

Vinirnir í sendiráðinu Lengi hefur farið það orð af Rússum, eins og reyndar mörgum öðrum þjóðum, að starfsfólk í sendiráðum sinni ýmsu öðru en því sem kalla megi hefðbundin sendiráðsstörf. Oft eru þessir starfsmenn kallaðir njósnarar en hlutverk þeirra er gjarnan að komast að upplýsingum sem gagnast gætu föðurlandinu með einum eða öðrum hætti.

Ein aðferð er að komast í kynni, og mynda tengsl, við einhvern sem komist getur yfir mikilvægar upplýsingar. Peningar koma iðulega við sögu sem greiðsla fyrir „greiðann“ og stundum reynist sú freisting öðru yfirsterkari. Mál Alexey Nikiforov er af þessum toga.

Ýmislegt óljóst Ekki er vitað hvernig það atvikaðist að kynni tókust með efnaverkfræðingnum Alexey og starfsmanni rússneska sendiráðsins í Kaupmannahöfn. Danskir fjölmiðlar geta sér til að hlutirnir hafi gerst hægt, kannski hafi sendiráðsmaðurinn og Alexey tekið tal saman á samkomu í sendiráðinu, vel hafi farið á með þeim og þeir svo farið að hittast úti í bæ, á veitinga- og kaffihúsum. Fyrst í stað hafi ekki verið rætt neitt um hugsanlega „efnisöflun“. Ljóst sé að Alexey hafi ekki verið valinn af handahófi, hann var virtur vísindamaður og upplýsingar um framleiðslu og þróunarvinnu SerEnergy gætu gagnast Rússum. 

Timur Rasulov kemur til sögunnar Sendiráðsmaðurinn sem upphaflega myndaði tengslin við Alexey fór heim til Rússlands í árslok 2017. Í hans stað kom maður á miðjum aldri, Timur Rasulov. Hann var titlaður sendiráðsritari en danskir fjölmiðlar segja að hann hafi verið starfsmaður leyniþjónustu rússneska utanríkisráðuneytisins, SVR. Hann og Alexey náðu strax vel saman. Ekki er með vissu vitað (eða verið upplýst) hvenær samið var um að Alexey myndi útvega upplýsingar handa Rússum. Sömuleiðis er ekki ljóst hvort sendiráðsmaðurinn þrýsti á Alexey með að fá starf hjá SerEnergy og láta sig fá upplýsingar um starfsemina þar, mikilvægar upplýsingar varðandi tækninýjungar tengdar orkuskiptunum sem víðar einblínt á.   

Náðu strax vel samanTimur Rasulov starfsmaður leyniþjónustu rússneska utanríkisráðuneytisins og Alexey náðu strax vel saman.

Fylgst með Alexey Nikiforov Í gögnum sem danska útvarpið hefur fengið aðgang að og birt (að hluta) kemur ekki fram hvernig á því stóð að danska leyniþjónustan fór að fylgjast með Alexey. Til eru fjölmargar myndir af honum og sendiráðsmanninum Timur, á veitingastöðum, bílastæðum og víðar. Af upptökunum og gögnum er ljóst að danska leyniþjónustan hefur lagt mikla áherslu á málið og talið það mikilvægt. 

Handtaka og húsleit  Þann 3. júlí 2021, klukkan 19.01, var Alexey Nikiforov handtekinn. Hann var þá staddur á bílastæði við skemmtigarðinn Bakken, skammt frá Kaupmannahöfn. Samtímis var gerð húsleit á heimili hans og þar fundust meðal annars dollaraseðlar, sem leyniþjónustan segir komna frá Rússum, minnismiðar þar sem talin eru upp atriði sem Alexey átti að afla upplýsinga um og koma í hendur sendiráðsmannsins Timur.

Fangelsi og brottvísun Í nóvember 2021 staðfesti Vestri-landsréttur dóm undirréttar sem hafði dæmt Alexey Nikiforov í þriggja ára fangelsi og lífstíðarbrottvísun frá Danmörku að afplánun lokinni. „Umfangsmiklar og skipulagðar njósnir“ sagði í niðurstöðu réttarins. Alexey hefur ætíð neitað öllum ásökunum. Þess má geta að Timur Rasulov fór frá Danmörku árið 2021.

Hvers vegna? Sú spurning hlýtur að vakna hvernig á því standi að maður eins og Alexey Nikiforov velur að gerast sendisveinn og upplýsingaþjófur Rússa. Vel vitandi að með því hætti hann starfsframa sínum og jafnframt möguleikanum á að búa í Danmörku, þar sem hann vildi vera. Voru það peningarnir sem á hann voru bornir í skiptum fyrir upplýsingar? Þessum spurningum er ekki auðvelt að svara. Þess eru mörg dæmi að fólk, bæði konur og karlar, hafi flækst í njósnanet erlendra ríkja og síðan ekki getað snúið við blaðinu. Sagan um Alexey Nikiforov er einungis eitt dæmi.

Stutt viðbót um leyniþjónustur Rússa  Í Rússlandi eru þrjár stórar og fjölmennar leyniþjónustur. Stærst er leyniþjónusta hersins, í daglegu tali kölluð GRU. Hún heyrir undir varnarmálaráðherrann og yfirstjórn hersins. GRU annast meðal annars áhættusöm verkefni, til dæmis að koma „óvinum“ ríkisins fyrir kattarnef. Danska leyniþjónustan, PET, telur víst að starfsmenn GRU hafi starfað í sendiráði Rússa í Kaupmannahöfn.

SVR er leyniþjónusta rússneska utanríkisráðuneytisins og miðlar upplýsingum til Pútín forseta. SVR var upphaflega deild innan sovésku leyniþjónustunnar KGB en varð að sjálfstæðri stofnun eftir fall Sovétríkjanna. SVR starfar að mestu utan Rússlands, og hefur unnið með leyniþjónustum annarra landa, til dæmis vegna hryðjuverka.

FSB var áður deild innan KGB. Starfsemin snýr fyrst og fremst að öryggismálum innanlands í Rússlandi og rannsóknum á alvarlegum afbrotum.

Í lokin er rétt að geta þess að frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur 15 starfsmönnum rússneska sendiráðsins í Danmörku verið vísað úr landi.