3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Skúbb í Sportinu í dag: Ari Freyr í viðræðum við Val

Skyldulesning

Rikki G. sagði frá því í hlaðvarpsþættinum Sportinu í dag að landsliðsbakvörðurinn Ari Freyr Skúlason sé mjög líklegur til að snúa aftur á heimaslóðir sínar í Val fyrir komandi tímabil í Pepsi Max deildinni.

Íslandsmeistarar Vals virðast ætla að halda áfram að styrkja sig fyrir titilvörnina í Pepsi Max deild karla í fótbolta næsta sumar og nú lítur út fyrir það að liðið sé að fá annan landsliðsmann heim út atvinnumennsku. Arnór Smárason var kynntur í síðustu viku og nú gæti annar verið á leiðinni.

Nýr þáttur af Sportinu í dag er nú kominn inn á Vísi en þar fara þeir Kjartan Atli Kjartansson, Henry Birgir Gunnarsson og Ríkharð Óskar Guðnason yfir það sem er að gerast í íþróttaheiminum.

Rikki G. „skúbbaði“ því í þættinum í dag að Ari Freyr Skúlason sé í viðræðum við Valsmenn um að spila með liðinu næsta sumar.

„Það eru heldur betur fréttir. Ég hugsa að deildin næsta sumar verði rosaleg,“ sagði Rikki G. sem býst við því að margir atvinnumenn gætu verið á leiðinni heim úr atvinnumennsku.

„Ég fór aðeins á stúfana í gær og heyrði frá mjög svo áreiðanlegum manni sem er mjög vel tengdur Hlíðarenda að Valsmenn eru búnir að tala við og undirstinga það að Ari Frey Skúlason mæti heim næsta sumar,“ sagði Rikki G.„Ari Freyr er samningsbundinn Oostende í Belgíu fram í júní næsta sumar. Hann hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu þremur leikjum en hann verður 34 ára næsta vor. Sagan segir að þeir ætli ekki að endurnýja samninginn við hann og Valur og Oostende ætli þá að reyna að finna einhvers konar millileið svo að hann geti komið mögulega í febrúar eða mars. Ari Freyr Skúlason mun snúa aftur á Hlíðarenda næsta sumar samkvæmt því sem ég heyri,“ sagði Rikki G.

Hér fyrir neðan má hlusta á allt Sportið í dag en þar fara strákarnir yfir það sem er að gerast í íþróttaheiminum.

Ari Freyr Skúlason er uppalinn Valsmaður en hann fór út í atvinnumennsku árið 2006. Áður en hann yfirgaf Val þá spilaði hann eitt tímabil með Hlíðarendaliðinu í efstu deild en Ari fór út aðeins nítján ára gamall.

Síðan hefur hann spilað í fjórtán ár í Svíþjóð (2006-13; BK Häcken, Sundsvall), Danmörku (2013-16; OB) og í Belgíu (2016-; Lokeren, Oostende). Ari Freyr er að renna út á samning hjá belgíska félaginu K.V. Oostende þar sem hann hefur spilað frá árinu 2019.

Ari Freyr hefur spilað 77 landsleiki fyrir Ísland en sá síðasti var á móti Englendingum á Wembley á dögunum. Hann var fastamaður í liði Lars Lagerbäck en hefur ekki spilað eins mikið hjá síðustu landsliðsþjálfurum.

Innlendar Fréttir