2 C
Grindavik
14. maí, 2021

Skurðpunktar – þar sem lengdar- og breiddarbaugar skerast á Íslandi

Skyldulesning

Skurðpunktakort

Eitt er að fá skrítnar hugmyndir og annað er að framkvæma þær. Og þegar búið er að framkvæma þær, er síðasta áskorunin eftir sem að gera eitthvað úr öllu saman til að festa verkið í sessi svo aðrir geti furðað sig á tiltækinu. Kannski á þetta við um uppátæki mitt sem var að eltast við þá staði á landinu þar sem lengdar- og breiddarbaugar skerast í heilum og óskiptum tölum – eða Skurðpunkta eins og ég kalla þessa staði sem eru alls 23 hér á landi innan strandlengjunnar.

Sprengisandur

Eins og gefur að skilja kölluðu þessir skurðpunktaleiðangrar á mikil ferðalög og göngur enda liggja staðirnir afar misvel að vegakerfi landsins. Ég var reyndar ekkert að flýta mér um of í þessu verkefni. Heimsótti fyrstu punktana sumarið 2013 og kláraði þann síðasta á Sprengisandi sumarið 2019, en þaðan er einmitt myndin hér að ofan.

Áður en hafist var handa hafði ég undirbúið mig vel, kynnt mér staðina sem best ég mátti og látið útbúa gulan ferning 40x40cm að stærð sem hægt væri að taka í sundur með einföldum hætti og fella ofan í bakpoka. Guli ferningurinn var þannig notaður til að afmarka skurðpunktinn á hverjum stað en var um leið einskonar rammi utan um sjálfa skurðpunktamyndina sem tekin er niður á jörðina, samanber þessar tvær myndir sem teknar eru nákvæmlega 65,0000°N/19,0000°W og 66,0000°N/17,0000°W.

2 skurðpunktamyndir

Með þessu fæst ágætis kerfisbundinn þverskurður af landinu, jafnt grónu landi sem og hinum tilkomumiklu auðnum landsins, en svo vill reyndar til að engin skurðpunktanna lendir á jökli.

Margt er auðvitað hægt að segja um staðina og öll ferðalögin og það hefur vissulega verið gert. Mér hlotnaðist til dæmis sá heiður að fá heilsíðuviðtal í sjálfu Morgunblaði allra landsmanna þann 31. mars síðastliðinn. Tilefnið var ekki bara verkefnið sem slíkt, heldur líka útkoma bókarinnar Skurðpunktar sem ég setti saman en þar eru punktarnir teknir fyrir einn af öðrum í máli og myndum – og auðvitað kortum. Allt heilmikið verk sem skýrir að hluta hversu lítið hefur verið um bloggfærslur hjá mér undanfarin misseri. Jafnvel í miðjum eldsumbrotum!

Ekki nóg með það því núna stendur einmitt yfir sýning í Gallery Grásteini á Skólavörðustíg 4, þar sem öllum myndunum er raðað saman í þeirri röð sem þeir koma fyrir í landinu. Fyrst um sinna er bókin einungis fáanleg á sýningunni en dettur væntanlega inn í bókabúðir fljótlega. Þar með ætti ég að vera búinn að gera sæmilega úr öllu saman og festa verkið í sessi svo aðrir geti furðað sig á tiltækinu, en kannski ekki síður fengið splunkunýja og raunsæja sýn á landið okkar. Sjón er sögu ríkari, svo maður bregði fyrir sig auglýsingamáli.

Skurdpunktar_1920x1080

Skilti skolavorðustigur


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir