0 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Skýr afstaða Morgunblaðsins

Skyldulesning

21.11.2020
10:48

Í bókinni lagði dr. Ólína lykkju á leið sína og endurtók
ósannindi um að faðir minn hefði hindrað útgáfu bóka Halldórs Laxness í Bandaríkjunum
í lok fimmta áratugarins.

Lesendum vefsíðu minnar er ljóst að ég hef átt
í ritdeilu við dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur eftir að ég vék að bók hennar
um skuggabaldra, það er þá sem hún telur að standi í vegi fyrir frama hennar og
nokkurra annarra.

Í bókinni lagði hún lykkju á leið sína og endurtók
ósannindi um að faðir minn hefði hindrað útgáfu bóka Halldórs Laxness í Bandaríkjunum
í lok fimmta áratugarins. Blásið var lífi í þessa bábilju eftir að norrænt ráðningarkerfi
var sniðgengið í þágu Þorvalds Gylfasonar vegna ritstjórnarstöðu við norrænt
hagfræðitímarit. Vildi fjármálaráðherra Íslands ekki una við að þannig væri staðið
að verki. Töldu stuðningsmenn Þorvalds að hann stæði í sömu sporum og Laxness
gagnvart bandarískum útgefendum fyrir rúmum 70 árum!

IMG_2551Birtir af degi, 09,.23 laugardag 21. nóvember 2020.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er vikið
að ágreiningi okkar dr. Ólínu um þetta efni og sagt undir fyrirsögninni Það
sem rétt er
:

„Ari fróði lét þann fyrirvara fylgja
Íslendingabók að væri eitthvað þar missagt væri „skylt að hafa það heldur, er
sannara reynist“. Í blaðamennsku hefur löngum verið haft að leiðarljósi að gott
sé að vera fyrstur með fréttina, en fyrst verði fréttin að vera rétt.

Á síðum Morgunblaðsins hefur undanfarið farið
fram ritdeila milli Björns Bjarnasonar og Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Upphaf
deilunnar var umsögn, sem birtist í aðsendri grein eftir Björn, um nýja bók
Ólínu. Snýst deilan um fullyrðingar Ólínu um að Bjarni Benediktsson, faðir
Björns, hafi þegar hann var utanríkisráðherra ásamt bandarískum ráðamönnum og
með aðstoð bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, komið því til leiðar um miðja
síðustu öld að bækur Halldórs Laxness hættu að koma út í Bandaríkjunum.

Í Morgunblaðinu í gær birtist grein eftir
Ólínu ásamt myndum af tveimur trúnaðarskjölum, sem eru frá 1948 og hafa verið
gerð opinber, frá William Trimble, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í
Reykjavík til utanríkisráðuneytisins í Washington.

Segir Ólína að skjölin sýni svo ekki verði um
villst að hún hafi rétt fyrir sér. En er það svo?

Í því fyrra segir Trimble að von sé á því að
Atómstöðin komi út, væntanlega í Bandaríkjunum, innan hálfs mánaðar. Kveðst
Trimble þar eiga von á að það myndi skaða orðspor skáldsins kæmi í ljós að hann
hefði skotið undan skatti og mælist til þess að greiðslur höfundarlauna til
hans verði skoðuð. Í því skjali er hvergi minnst á Bjarna eða íslenska
ráðamenn.

Í seinna skjalinu er fjallað um höfundarlaun Halldórs
og sagt að gögn hafi komið fram um að þau hafi ekki öll verið gefin upp til
skatts. Þar kemur einnig fram að Bjarni hafi séð gögnin, en þar sem þau hafi
verið sýnd honum í trúnaði sé ekki hægt að nota þau komi til þess að skattamál
skáldsins fari fyrir dómstóla. Í þessu skjali er ekki orð um útgáfu bóka
Halldórs.

Það er auðvelt að draga ályktanir og smíða
samsæriskenningar, en hversu langt er réttlætanlegt að ganga í að lesa milli
lína? Þessi samskipti um skattamál Halldórs kunna að þykja óviðurkvæmileg, en
samkvæmt skeyti sendiherrans snerust þau aðeins um þessar erlendu greiðslur til
Halldórs og hvort þær hefðu verið taldar fram.

Ólína grípur til þess bragðs að slá saman efni
skeytanna til þess að fá sína útkomu um hlutverk Bjarna, sem varð síðar
ritstjóri Morgunblaðsins. Ólína segir í grein sinni að frumheimildirnar tali
sínu máli. Þær segja bara ekki það sama og hún heldur fram.“

Innlendar Fréttir