2 C
Grindavik
15. maí, 2021

Slaufanir og nornaveiðar

Skyldulesning

Það hefur býsna mikið verið fjallað um svokallaðan „cancelkúltúr“, eða „slaufunarmenningu eins og er byrjað að kalla fyrirbærið, upp á síðkastið.

Það kemur ef til vill ekki til af góðu, enda hefur fyrirbærinu vaxið hratt fiskur um hrygg á undanförnum misserum.

Margir hafa líkt þessu við fasisma, enda hefur „cancelkúltúr“ líklega hvergi átt betra skjól en hjá alræðisstjórnum s.s. kommúnisma og fasmisma.

Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki síður duglegur við að „cancela“ einstaklingum en „Twitterherinn“.

Trúarbrögð hafa einnig ljóta sögu hvað slíkt varðar og „canceluðu“ mörgum sér ekki þóknanlegum  bókstaflega endanlega, og slíkt virðist enn mæta velþóknun í sumum trúarbrögðum.

Ekki er úr vegi að minnast á nornaveiðar og -brennur í þessu samhengi, enda margt keimlíkt með athöfnunum, þó að nú á tímum séu bálkestirnir og heykvíslarnar næstum eingöngu „sæber“.

Þessi árátta er lang mest áberandi nú á vinstri væng stjórnmálanna nú á dögum, en hægri menn hafa vissulega spreitt sig á þessum vettvangi á ýmsum skeiðum. 

Nægir þar að minna á „óameríkanska tímabilið“ um miðja síðustu öld.  Þar naut „cancelkúlturinn“ sín vel, þó að undir öðru nafni væri. Fáir voru þar líklega „dæmdir“ saklausir, ef það að vera kommúnisti er talið saknæmt athæfi, en hversu eðlilegt er að telja stjórnmálaskoðanir saknæmt athæfi?

Reyndar má segja að ekkert sé nýtt í þessu efnum og allt snúist í hringi.  Eins og áður sagði hafa t.d. kristin trúarbrögð „cancelað“ (t.d bannfært) marga einstaklinga í gegnum tíðina, en á upphafsárum þeirra trúarbragða létu (í það minnsta ef trúa má frásögnum) Rómverjar ljón sjá um að „cancelera“ ýmsum áberandi kristnum einstaklingum.

Það sem ef til vill sker „cancel culture“ nútímans hvað mest frá fornum tímum, er að nú á dögum nýtur hann alls ekki stuðnings, eða atbeina hins opinbera nema á stöku stað.

Líkamlegt ofbeldi, þó að það sé ekki óþekkt, er einnig sem betur fer fjarverandi í flestum tilfellum.

„Aftökustaðirnir“ eru fjöl- og samfélagsmiðlar og refsingin smánun og atvinnumissir, frekar en „beinar aftökur“.

„Athugasemdir“ og „statusar“ hafa leyst af „heykvíslar“ og „kyndla“, og vissulega má telja það að til framfara tæknialdarinnar:-)

En að sama skapi krefjast þær framfarir minna af þátttakendum í „blysförunum“ sem þurfa ekki að einu sinni að hafa fyrir því að yfirgefa þægindi heimila sinna.

Það má „hafa allt á hornum“ sér á sama tíma og steikin er í ofninum, nú eða vinnunni sinnt á „faraldurstímum“.

En af hverju eiga svo margir erfitt með að umbera andstæðar skoðanir, önnur trúarbrögð, eða hvað það svo sem er sem fer í taugarnar á þeim?

Auðvitað er alltaf eðlilegt og sjálfsagt að ræða málin, rökræða, berjast um hugmyndir eða „fræði“ þeim tengd.

En þýðir það að þeir sem eru andstæðrar skoðunar séu óalandi, óferjandi, eigi skilið að missa vinnunna, eða að engir eigi að kaupa hugverk þeirra?

Auðvitað verður hver að svara fyrir sig.

En frjálslyndi, umburðarlyndi og skilningur á mismunandi sjónarhornum virðast mér víða vera á undanhaldi.

Þó er eðlilegt að halda fram eigin skoðunum og mótmæla þeim sem viðkomandi er ekki sammála.

Jafnvel af festu, en ekki ofstæki.


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir