Slaufuðu veiðikeppni barna á villiköttunum eftir reiðiöldu mótmæla – DV

0
137

Skipuleggjendur villakattaveiðikeppni fyrir börn í Nýja Sjáalandi hafa ákveðið að hætta við viðburðinn í kjölfar háværra mótmæla frá almenningi og dýraverndunarsamtökum. CNN greinir frá.

Umræddur viðburður var á dagskrá fjáröflunarhátíðar skóla í Canterbury á Suðureyju landsins.

Eins og áður segir snerist viðburðurinn um að börn myndu freista þess að veiða sem flesta villiketti á svæðinu en óhófleg fjölgun kattanna er orðið að mikilli plágu og ógn við annað dýralíf. Hefur því verið haldið fram að villikettir séu ógn við tilvist um 100 annarra dýrategunda.

Átti að verðlauna það barn sem flestum köttum næði með sem nemur 20 þúsund krónum en allar mögulegar veiðiaðferðir voru í boði, meðal annars skotvopn eins og loftbyssur.

Allt varð vitlaust þegar viðburðurinn var auglýstur og barst skipuleggjendum fjöldinn allur af mótmælum og ekki síður hótunum. Ein dýraverndunarsamtök bentu meðal annars á að keppni barna sem snerist um að drepa dýr væri vísasta leiðin til að byggja upp einstaklinga sem væru líklegri til að leysa málin með ofbeldi frekar en umræðu og samkennd.

Þá óttuðust margir  að heimiliskettir sem væru á vappi utandyra gætu orðið fórnarlamb æstra ungmenna með mikið keppniskap.

Að endingu sáu skipuleggjendur sæng sína útbreidda og ákváðu að hætta við keppnina.

Hin fyrirhugaða keppni hefur vakið mikla athygli um allan heim. Breski grínistinn Ricky Gervais er meðal þeirra sem tætti hugmyndina í sig með háði.

“Right. We need some new PR ideas to make the world love New Zealand. Maybe something involving kids & kittens. Yes, Hargreaves?” https://t.co/E3nPTl1IHj

— Ricky Gervais (@rickygervais) April 19, 2023