7.3 C
Grindavik
4. október, 2022

Sofnaði á salerni og missti af flugi

Skyldulesning

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna ofurölvi erlends manns á salerni í rútu um hálfellefuleytið í gærkvöldi. Rútan hafði verið að flytja erlenda fótboltaáhorfendur í flug og mun maðurinn hafa sofnað áfengissvefni á salerni rútunnar og því misst af fluginu. Lögreglumenn náðu að vekja manninn og gekk hann sína leið.

Taldi fíkniefnasalann hafa byrlað sér ólyfjan

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi voru afskipti höfð af konu í annarlegu ástandi við veitingastað í hverfi 108 í Reykjavík. Konan sagðist hafa verið að kaupa sér fíkniefni og að hún hefði notað efnin en hefði verið að líða út af. Hún taldi  fíkniefnasalann hafa byrlað sér ólyfjan. Einnig sagði hún fólk hafa ráðist á sig. Sjúkrabifreið var send á vettvang.

Tilkynnt var um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur um miðnætti. Þegar lögreglan kom á vettvang voru slagsmál yfirstaðin og var einn aðili blóðugur á vettvangi.

Ofurölvi með reiðhjól

Afskipti voru höfð af ofurölvi eldri konu skömmu fyrir miðnætti með reiðhjól í hverfi 104. Aðspurð neitaði konan að gefa upp kennitölu eða dvalarstað og var því handtekin og færð á lögreglustöð. Hún var vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Hún verður kærð fyrir brot á lögreglusamþykkt, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um hálftíuleytið var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna umferðaróhapps í miðbæ Reykjavík. Tveir menn voru í bifreiðinni sem olli tjóninu og voru þeir báðir handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökuréttindum. Sá sem varð fyrir tjóninu kvartaði undan eymslum í baki og hnakka en afþakkaði aðstoð.

15 ára undir stýri

Á öðrum tímanum í nótt var bifreið stöðvuð á 111 km hraða þar sem hámarkshraði er 80 km/klst í Garðabæ. Ökumaðurinn reyndist vera 15 ára og hefur hann því aldrei öðlast ökuréttindi. Málið var unnið með aðkomu föður ökumanns sem veitti heimild fyrir því að vinur drengsins sem var farþegi í bifreiðinni og með ökuréttindi tók við akstri bifreiðarinnar.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir