0 C
Grindavik
23. nóvember, 2020

Sögufrægur útvarpssjónauki sagður að hruni kominn

Skyldulesning

Arecibo-útvarpssjónaukinn sögufrægi er mögulega að hruni kominn. Einn af köplunum sem heldur sjónaukanum uppi losnaði í sumar. Þegar hefja átti viðgerðir á honum gaf annar og mikilvægari kapall sig. Það var þann 6. nóvember.

Verkfræðingar segja kapla útvarpssjónaukans mögulega úr sér gengna og er óttast að fleiri muni slitna og að sjónaukinn hrynji. Þeir sem hafa skoðað sjónaukann hafa notast við dróna og myndavélar því ekki er talið öruggt að nálgast hann vegna þess ástands sem hann er í.

Sjónaukinn er einn sá stærsti í heimi og er staðsettur í frumskógi Púertó Ríkói. Hann hefur verið í notkun frá 1963 og hefur sést í kvikmyndum eins og GodenEye og Contact.

Útvarpssjónaukinn er meðal annars notaður til þess að senda útvarpsbylgjur út í geiminn og leita að smástirnum sem gætu stefnt á jörðina.

Eftir að kapallinn losnaði í sumar skoðuðu verkfræðingar sjónaukanna og sögðu að hinir kaplarnir ættu að ráða við þyngdina en útvarpssjónaukinn er um 900 tonn að þyngd. Í yfirlýsingu á vef Háskóla í Flórída sem rekur sjónaukann, UCF, segir að líklega hafi seinni kapallinn skemmst yfir tíma og tekið á sig auka þyngd síðan í sumar.

Burðargeta kaplanna hafi í raun minnkað.

Hér má skemmdir sem urðu þegar einn kapall losnaði í ágúst. Hann myndaði um 30 metra breitt gap í disk útvarpssjónaukans.AP/Arecibo Observatory

Þeir sérfræðingar sem hafa verið fengnir til að skoða sjónaukann segja ekki hægt að tryggja að hann sé öruggur að svo stöddu. Allir þeir kaplar sem séu eftir haldi nú meiri þyngd en áður og þar af leiðandi séu líkurnar á því að fleiri slitni meiri.

Gerist það segja verkfræðingar líklegt að allur sjónaukinn hrynji.

Í frétt Space.com segir að til hafi staðið að hefja viðgerðir á kaplinum sem losnaði í sumar þegar sá seinni gaf sig í byrjun mánaðarins. Árið 2014 gaf kapall sig í öflugum jarðskjálfta sem olli einnig öðrum skemmdum á útvarpssjónaukanum. Einnig átti eftir að laga hann.

Hann skemmdist svo einnig árið 2017 þegar fellibylurinn María fór yfir Púertó Ríkó.

Sjónaukinn er í eigu National Science Foundation og virðist sem að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvað eigi að gera varðandi það ástand sem hefur myndast. Nokkrir möguleikar eru sagðir í boði og stendur til að taka ákvörðun á næstu dögum.

Hér má sjá sjónavarpsfrétt CBS frá því í sumar eftir að fyrri kapallinn gaf sig.

Innlendar Fréttir