1 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Sonur minn leggur í einelti – Ég bara græt og græt

Skyldulesning

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem á barn sem leggur í einelti.

Kristín Tómasdóttir

Sæl, Kristín.

Ég er í stöðu sem ég hélt ég myndi aldrei finna mig í. Líklega martröð margra foreldra. Sonur minn er að leggja bekkjarfélaga sinn í einelti. Foreldrar bekkjarfélagans hafa sett sig í samband við mig og vilja hittast og ræða málin, en ég hef ekki eina einustu hugmynd um hvernig ég get tæklað þessar aðstæður.

Sonur minn neitar að sjálfsögðu öllu, en starfsmenn í skólanum staðfesta að bekkjarfélaginn er að segja satt. Ég bara græt og græt og veit ekkert hvað ég á að gera, eða hvað ég gerði vitlaust í uppeldinu. Ertu með einhver ráð fyrir mig?

Kveðja, eyðilögð móðir

Sýna gott fordæmi

Sæl, móðir. Orð eru svo áhrifarík. Þú mátt ekki trúa því að þú sért eyðilögð móðir, þú ert móðir sem finnur til vanmáttar, en ekki eyðilögð eða ónýt á nokkurn hátt. Þú hefur til að mynda viðleitni til þess að skrifa mér þessa spurningu og það segir mér að þú ert lausnamiðuð móðir sem vilt gera þitt allra besta til þess að syni þínum og bekkjarfélögum hans líði vel. Það er merki um móður sem er að gera rétt. Bara vel gert mamma, nú brettum við upp ermar og gerum eins gott úr þessu og hægt er.

Þessi spurning er afar viðeigandi núna eftir mikla eineltisumræðu í samfélaginu. Sú umræða sýnir að við sem samfélag virðumst eiga erfitt með að finna lausn þegar kemur að einelti barna, þó svo að ég trúi því að við séum öll af miklum vilja gerð hvað það varðar. Það sýnir okkur að þú ein, sem móðir, ert ekki að fara að leysa þennan vanda, en þú ert sannarlega mikilvægur hlekkur í átt að lausn. Þú nefnir að þú hafir ekki hugmynd um hvernig þú eigir að tækla aðstæður, en það eina sem þú gerir rangt er ef þú myndir ekki gera neitt. Ef þú sýnir syni þínum öryggi og gott fordæmi í þessum aðstæðum, þá eruð þið bæði að fara að mokgræða á þessari reynslu.

Úthrópum engan

Þú nefnir að sonur þinn neiti allri sök og það má bara vel vera að hann eigi ekki sök á neinu. Aftur á móti getur „ekki neitt“ flokkast sem útskúfun, bekkjarfélaginn gæti verið að upplifa atburði á annan hátt en sonur þinn, eða að þarna spili aðrir einstaklingar hlutverk sem ekki hefur komið fram.

Ef foreldrar bekkjarfélagans vilja hittast og ræða málin, er það ekki bara hið besta mál? Þar getur þú aðstoðað son þinn við að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, fengið hina hlið málsins og áttað þig betur á stöðunni. Í því felst gríðarlegur lærdómur fyrir alla hlutaðeigandi í þessu máli.

Það er gríðarlega mikilvægt að úthrópa engan. Sonur þinn er ekki vondur ofbeldismaður. Hann er barn sem er að læra á félagsleg samskipti, kannski er hann í flóknu, félagslegu umhverfi og kannski þarf hann aðstoð við að tækla það, þannig að það birtist ekki sem ofbeldi eða einelti.

Mögulega myndi þetta mál leysast farsællega ef þinn sonur fær réttan stuðning og hjálp við að finna bjargráð sem nýtast honum og skaða engan. Annar eins stuðningur er í boði innan skólakerfisins fyrir þá sem eiga erfitt með lestur eða stærðfræði, það sama á að sjálfsögðu að gilda um stuðning í félagsfærni og samskiptum.

Afneitun foreldra algeng

Fólk leggur mismunandi merkingu í orðið einelti. Það sem einn upplifir sem einelti getur annar upplifað sem grín. Nú veit ég ekki hvað sonur þinn er gamall en börn eru misfær eftir þroskastigum til þess að setja sig í spor annarra og sjá þeirra hlið og upplifun. Einnig greinir okkur fullorðna fólkið á um það hvað sé rétt eða rangt, viðeigandi eða óviðeigandi, fordómar eða fáfræði. Hvernig í ósköpunum eiga þá börn á grunnskólaaldri að gera það upp við sig? Besta mögulega útkoman í ykkar máli væri ef þið mæðginin, foreldrar bekkjarfélagans og skólinn gætuð myndað stefnu og sett markmið, sem miðar að því að báðum drengjunum líði vel í skólanum.

Ég verð að hrósa þér fyrir eitt, þ.e. að þú orðar spurningu þína eins og það versta sem þú getur hugsað þér sé að koma fyrir þig, það segir mér að það skiptir þig miklu máli að ala upp réttsýnan og siðprúðan einstakling sem er góður við annað fólk. Margir myndu frekar orða spurninguna líkt og þú ef þau væru hinu megin borðsins, sem er skiljanlegt því við erum vanmáttug gagnvart börnunum okkar sem upplifa einelti í skóla.

Eins er algengt að foreldrar „gerenda“ rjúki upp í vörn og neiti að horfast í augu við vandann sem er kominn upp. Mér finnst þú einmitt sýna hugrekki, skilning og réttsýni, við að gangast við þeirri stöðu sem upp er komin og vilja með öllum þínum mætti finna farsæla lausn. Ef allir hugsuðu þannig, þá trúi ég því að við værum við einu skrefi nær eineltislausum heimi.

Nú er lag að snúa vörn í sókn. Við erum öll voldug þegar kemur að því að hafa áhrif á líðan annarra. Þið mæðginin getið litið á þessa stöðu sem tækifæri til þess að stuðla að því að bekkjarbræðrunum líði báðum vel í skólanum. Ef það tekst, mun það valdefla báða þessa drengi, sem og samfélagið í heild sem fær fordæmi um hvernig vel er staðið að svona málum. Gangi ykkur sem allra best, ég hef massatrú á ykkur.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Innlendar Fréttir