Sorgarsaga konunnar með blómahúðflúrið – DV

0
8

„Snemma í júní 1992. Sumarið er rétt að byrja í belgísku borginni Antwerp og vegfarandi gengur fram á lík sem flýtur í gruggugu vatni árinnar Groot Schijn.“

Svona hefst ítarleg umfjöllun sem birtist í dag á vef Daily Mail um líf og dauða Ritu Roberts, konunnar með blómahúðflúrið eins og hún var gjarnan kölluð. Í síðustu viku var það gert opinbert að kennsl hefðu loksins verið borin á Ritu sem fannst látin sumarið 1992.

Alþjóðleg herferð skilaði árangri Rita, sem var 31 árs breskur ríkisborgari, flutti til Belgíu frá Cardiff í Wales í febrúar 1992 og heyrði fjölskylda hennar síðast frá henni í maí það ár. Fyrr á þessu ári var farið í alþjóðlega herferð til að bera kennsl á „konuna með blómahúðflúrið“ eins og Rita var kölluð. Það skilaði sér í sumar þegar aðstandandi Ritu bar kennsl á hana.

Sjá einnig: „Berðu kennsl á mig“ – Konan með blómahúðflúrið var myrt – Alþjóðleg herferð til að bera kennsl á konuna

Það var strax ljóst að Rita hafði verið í ánni á þó nokkurn tíma áður en hún fannst. Hún var með stungusár víða á líkamanum, á baki og hálsi til dæmis. Þrátt fyrir ítarlega rannsókn lögreglu tókst ekki að bera kennsl á konuna sem var ekki með nein skilríki á sér. Þá komu lýsingar á henni ekki heim og saman við lýsingar á öðrum konum sem saknað var í Belgíu á þessum tíma.

Var á flótta þegar hún var myrt Í umfjöllun Daily Mail, sem ræddi við aðstandendur hennar til að púsla sögu hennar saman, kemur fram að hún hafi verið á flótta þegar hún var myrt. Rita hafði sjálf komist í kast við lögin, meðal annars vegna íkveikju, þjófnaðar, fjárkúgunar og vændis og ákvað hún að flýja til meginlands Evrópu og láta sig hverfa.

Sjá einnig: Vita loks hver „konan með blómahúðflúrið“ er

Aðstandendur Ritu voru vel meðvitaðir um vandræði hennar og fékk það mikið á þá þegar hún hvarf skyndilega einn febrúardag árið 1992. Þeir leituðu hennar án árangurs og töldu jafnvel að hún hefði látist í flugslysi árið 1992 þegar flugvél lenti á íbúðarhúsi í Amsterdam með þeim afleiðingum að 43 létust.

Jason, yngri bróðir Ritu, ræddi við Daily Mail og lýsti hann systur sinni sem „kvenkyns útgáfunni af Pétri Pan“ – alltaf brosandi og hlæjandi. Jason heimsótti meðal annars Holland og Belgíu í leitinni að systur sinni á sínum tíma en hann segir að lögregla hafi ekki haft mikinn áhuga á að hjálpa við leitina.

„Það eina sem þeir gerðu var að beina mér til Hjálpræðishersins eða lögreglunnar í Bretlandi. Ég held að allir hafi vitað að eitthvað slæmt hafi gerst því hún sendi móður sinni alltaf afmælis- og jólakort, án undantekninga,“ segir hann.

Eiturlyf, áfengi og afbrot Sem fyrr segir fóru lögregluyfirvöld í Belgíu, Hollandi og Þýskalandi – í samvinnu við Interpol – í átak fyrr á þessu ári þar sem markmiðið var að bera kennsl á 22 konur sem allar höfðu fundist myrtar. Óhætt er að segja að átakið hafi strax borið ávöxt í tilviki Ritu því systir Ritu, Donna, 61 árs, sá umfjöllun um málið og þekkti húðflúrið sem Rita var með á sér.

Rita Roberts fæddist í október 1960. Móðir hennar, Eirlys, lést árið 2001 og faðir hennar, Joseph Cordina, er einnig látinn. Hún var elst fjögurra systkina; Donna fæddist árið 1962, Anthony árið 1964 og Jason árið 1969. Móðir þeirra ól þau upp ein og var lífið ekki alltaf dans á rósum þegar börnin voru að alast upp í Grangetown-hverfinu sem á þeim tíma var alræmt vegna glæpa og ofbeldisbrota.

Rita kynntist snemma áfengi og eiturlyfjum og stundaði hún afbrot og vændi um tíma til að fjármagna neyslu sína. Árið 1991 var hún ákærð fyrir að kveikja í húsi og stofna þar með lífi sjö íbúa þess í hættu. Jason segir að Rita hafi kveikt í flugeldi og kastað honum inn í glugga á húsinu þegar hún var undir áhrifum hugbreytandi efna. Segir hann að um hafi verið að ræða deilur á milli tveggja hópa í Cardiff.

Rita átti yfir höfði sér fangelsisdóm og ákvað hún af þeim sökum að flýja til Belgíu með því að nota vegabréf systur sinnar, Donnu. Rita hafði dvalið í Hollandi og Belgíu, þar á meðal Antwerp, þegar hún var um tvítugt og þekkti hún borgina því ágætlega. Þegar Rita hvarf vaknaði strax grunur um að hún hefði mögulega flúið til Hollands eða Belgíu eins og síðar kom í ljós.

Finnur til með móður sinni Rita sendi fjölskyldu sinni póstkort í maí 1992 og var það í síðasta skipti sem fjölskyldan heyrði frá henni. „Mamma vissi að við værum búin að missa hana. Það var aldrei talað um þetta en ég sá það í augunum á henni að hún vissi hvað hafði gerst,“ segir Jason.

Jason segir að það sé ákveðinn endapunktur í þessu ferli öllu að vita hver örlög Ritu voru. „Móðir okkar er látin og ég finn aðallega til með henni. Við lifðum í þeirri von í öll þessi ár að Rita myndi koma aftur,“ segir hann.

Morðingi Ritu fannst aldrei og hefur belgíska lögreglan biðlað til þeirra sem upplýsingar kunna að hafa að hafa samband við lögreglu. Aðstandendur Ritu vinna nú að því að fá lík hennar flutt úr ómerktri gröf í Antwerp heim til Cardiff.