10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Spilakort skaðaminnkandi en ekki meðferðarúrræði

Skyldulesning

Spilakassar Happdrættis Háskólans.

Innleiðing spilakorta í spilakössum mun ekki koma í stað meðferðar heldur er um skaðaminnkandi úrræði að ræða. Aðgerðin er þó löngu tímabær og mun takmarka fjárhagstap þeirra sem stríða við spilafíkn til muna.

Þetta segir Daníel Þór Ólason, prófessor í sálfræði og einn þeirra sem var í starfshópi rektors um álitaefni tengd tekjuöflun Happdrættis Háskóla Íslands.

Skýrsla starfshópsins, sem fjallar m.a. um rannsóknir á spilafíkn ásamt viðhorfum og siðferðilegum sjónarmiðum gagnvart spilakössum sem tekjuöflunarleið, var birt á vef háskólans í síðustu viku en hún er dagsett þann 28. júní 2021.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að HÍ geti ekki staðið að rekstri spilakassa öðruvísi en að taka tillit til rannsókna um áhrif spilakassa á tiltekna samfélagshópa og að sömuleiðis þyrfti skólinn að taka upp allar mögulegar aðgerðir sem geta stuðlað að ábyrgri spilun, til að mynda spilakort.

Starfshópurinn var settur á laggirnar í kjölfar umræðu í samfélaginu um skaðsemi spilakassa en þeir hafa verið meðal tekjuöflunarleiða HHÍ í tæpa tvo áratugi og fjármagnað á þriðja tug bygginga HÍ.

Daníel Þór Ólason, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands.

Spilakort eindregin afstaða hópsins

Daníel Þór hefur verið ötull í rannsóknum á spilafíkn frá haustinu 2002 og hefur meðal annars skoðað spilafíkn í tengslum við unglinga, fullorðna, íþróttamenn og svo lengi mætti telja.

Spurður hvort ekki væri þörf á banni, kveðst hann ekki muna sjá eftir spilakössum en hann aðhyllist þó ekki þá nálgun að banna.

„Bannið myndi hafa áhrif, það er engin spurning. Menn sáu mjög mikil áhrif af banni á spilakössum á þessu tveggja ára tímabili sem það var í Noregi.

Það minnkaði mjög mikið hringingum í hjálparlínu útaf spilafíkn. Það dró mjög úr eftirspurn eftir meðferð við spilafíkn á þessum tíma í Noregi, en algengi spilafíknar hún lækkaði ekki mikið. Fólk er bæði að spila fleiri spil og svo er fólk að spila á netinu.“

Spilakort sameiginleg niðurstaða hópsins

Að sögn Daníels var það eindregin afstaða starfshópsins að takmarka frekar fjárhagstap þeirra sem eiga við fíknivanda að stríða með innleiðingu spilakorta, líkt og þekkist víðar á Norðurlöndunum þar sem rekstur spilakassa er alfarið á vegum ríkisins.

Teljið að þetta sé alveg nóg til að bregðast við þessum vanda með að innleiða spilakort?

„Ég hef lengi talað fyrir þessu að við tækjum þetta upp og hef verið ósáttur í mörg ár að það hafi ekki verið gert. Ég hef mælt með þessari leið því ég hef alltaf litið svo á að bann sé stórt skref að taka. En þessi leið – það sem hún gerir er að hún gerir skaðaminnkun. Skaðinn sem verður hjá þeim sem eiga við spilavanda að stríða, það er hægt að lágmarka hann.“

Hægt væri að takmarka upphæðir

Með innleiðingu spilakorta segir Daníel að hægt væri að fá yfirlit yfir tíma og peninga sem spilarar verja í spilakössunum. Til að spila yrði fólk að skrá sig inn og þeir sem missa tökin gætu sett sjálfan sig í bann í skilgreindan tíma. Einnig væri hægt að bjóða fólki upp á áhættumat eins og spilavandapróf.

Þá stæðu til boða tvær leiðir til að takmarka eyðslu. Annars vegar gætu spilarar sjálfir sett sér hámarks upphæðir sem hægt væri að spila fyrir á ákveðnu tímabili, og hins vegar gæti rekstraraðili sett hámarks upphæð. 

Ef farið yrði eftir síðarnefndu leiðinni gætu spilarar einnig sett sér hámarks upphæðir, en þær gætu þó aldrei verið umfram það sem rekstraraðili hefur ákveðið. 

Þá segir hann bæði Svía og Norðmenn hafa látið reyna á spilakort með ágætis árangri. Fólk í Svíþjóð hafi vanmatið hvað það spilaði fyrir háar fjárhæðir og almennt sett sér lægri mörk, með tilheyrandi tekjufalli fyrir reksturinn. Þá settu Norðmenn þak á hvað spilarar gátu eytt miklum pening, eða því sem nam 10 þúsund krónum á dag og 40 þúsund krónum á mánuði. 

Yrði innleiðing spilakorta ekki að vera samhæft átak allra þeirra sem koma að rekstri spilakassa hér á landi?

„Jú það væri náttúrulega ákjósanlegast að vera með samráð við aðra. Það eru tveir aðilar sem að standa fyrir rekstri spilakassa, svo eru fleiri sem standa að rekstri peningaspila,“ segir Daníel.

„Þannig það að setja algjört kerfi þýðir það annað hvort að fyrirtækin taki sig saman og vinni þetta saman eða hver og eitt verði með sitt eigið spilakort sem er kjánalegt því það er mikill kostnaður af því.“

Erfitt að meta hámark

Aðspurður segir Daníel það geta verið snúið að ákveða hversu háar fjárhæðir ætti að takmarka notkun spilara við enda misjafnt eftir hverjum og einum hvað telst viðráðanlegt.

„Ég hef nú tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknum það sem við höfum verið að skoða þröskulda, það er að segja; Getum við gefið almenn ráð um það hversu oft er óhætt að spila og hversu mikið þú getur eytt áður en það er líklegt að þú lendir í vanda?

Það má segja að menn hafi dregið línuna við að svo lengi sem þú eyðir ekki meira en því sem nemur einu prósenti af tekjum þá sé ekki líklegt að spilahegðun þín valdi þér miklum skaða. Svo eru tekjur náttúrulega mismunandi. Menn eru eitthvað byrjaðir í Svíþjóð að tekjutengja hversu háar upphæðir hver og einn spilari getur spilað fyrir.“

Er það ekki flókið í framkvæmd?

„Ég held að það hljóti að vera mjög flókið. En þeir eru að fikra sig áfram í framkvæmd. Þegar þú skráir þig þá þarf að liggja fyrir hversu miklar tekjur þú hefur. Ég held að Íslendingar séu nú ekkert alltof hrifnir að gefa upp hvað þeir séu með í tekjur. En þannig eru þeir að gera þetta í Svíþjóð. En menn verða bara að komast að einhverri niðurstöðu sem menn myndu telja að væri skynsamleg.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir