5 C
Grindavik
8. maí, 2021

Sprautuð með Spútnik

Skyldulesning

Spútnik V dælt í vinstri öxl Hildar Sifjar í Pétursborg …

Spútnik V dælt í vinstri öxl Hildar Sifjar í Pétursborg í Rússlandi í gær, 1. apríl, og ekkert aprílgabb þar á ferð heldur blákaldur veruleiki. Hún er hress eftir bólusetninguna og klár í síðari sprautuna eftir þrjár vikur.

Ljósmynd/Aðsend

„Það lá eiginlega bara beint við að skella okkur í bólusetningu hérna,“ segir Hildur Sif Thorarensen, verkfræðingur og rithöfundur, stödd í Pétursborg í Rússlandi en búsett í Asker í Noregi, í samtali við mbl.is í dag, en Hildur gekkst í gær undir fyrri sprautuna í bólusetningu gegn kórónuveirunni með rússneska bóluefninu Spútnik V og gerði meira að segja stutt myndband af athöfninni fyrir mbl.is.

Hildur segir fjölskylduna hafa hugsað sér að koma til baka til Noregs í sumar, en hún er í fæðingarorlofi eins og er, en þó við það að taka fyrstu skrefin í nýju starfi sem forritari hjá norsku fyrirtæki. Þar sem sóttvarnareglur í Noregi geri, þegar þetta er skrifað, ráð fyrir sjö daga sóttkví á hóteli við komu til landsins, sem mælst hefur ákaflega misjafnlega fyrir hjá Norðmönnum jafnt sem erlendum gestum, eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag, taldi Hildur það eina vitið að drífa bólusetninguna bara af í Rússlandi og hafa vaðið fyrir neðan sig við komuna aftur til Noregs.

Hildur Sif, Dmitri Antonov maður hennar og dóttirin Annabella Sif …

Hildur Sif, Dmitri Antonov maður hennar og dóttirin Annabella Sif Thorarensen sem þeim fæddist í Pétursborg í fyrra þrátt fyrir að vera búsett í Noregi. Hildur Sif kveðst hæstánægð með þjónustuna í rússneska heilbrigðiskerfinu.

Ljósmynd/Aðsend

„Eins er líklega stutt í að þessi bólusetningarvegabréf fari að verða við lýði víðast hvar, til dæmis er mikill áhugi fyrir þeim á Íslandi og okkur langar nú að geta farið með barnið okkar til Íslands svo við ákváðum að athuga hvort við gætum fengið bólusetningu hér,“ útskýrir Hildur sem er stödd í nuddi meðan spjallið fer fram.

Bara óbreyttir túristar

Maður Hildar er Dmitri Antonov sem er mjög fjölþjóðlegur, sonur rússnesks föður og rússnesk-eistneskrar móður, fæddur í Tallinn í Eistlandi en íslenskur ríkisborgari, stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, sagnfræðingur frá Háskóla Íslands og tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann er fagstjóri gagnadeildar norsks tæknifyrirtækis og sinnir starfi sínu þar við tölvuskjáinn í Pétursborg meðan á dvölinni stendur. Fjarvinna eins og veruleiki margra er þessi misserin.

Til að byrja með segir Hildur þau hafa haft samband við sitt sjúkrahús í Pétursborg, þar sem hún eignaðist dóttur þeirra í fyrra, og spurt hvort hægt væri að bólusetja þau. „Þar var okkur sagt að það væri ekki hægt þar sem við værum bara óbreyttir túristar. Ég hafði þá samband við sendiráðið og var þar bent á ræðismann Íslands hér í Pétursborg,“ segir Hildur af bólusetningaráformunum.

Lykja af Spútnik V í hendi hjúkrunarfræðingsins sem bólusetti Hildi …

Lykja af Spútnik V í hendi hjúkrunarfræðingsins sem bólusetti Hildi Sif. Efnið var gaddfreðið en fræðingurinn þíddi það í hendi sér áður en Hildi var sett nálin.

Ljósmynd/Aðsend

Þar hafi niðurstaðan orðið sú að hægt væri að verða við óskum þeirra Íslendinganna og úr varð að Hildur fékk fyrri sprautuna í gær og Dmitri á tíma í næstu viku.

Hvernig gekk þetta allt saman fyrir sig?

„Við fórum á spítala sem heitir Euromed. Þar þurfti að fylla út heilmikinn spurningalista um heilsufar og þeir taka bara tvo í einu svo við gátum ekki farið bæði, þannig er það fyrir þá sem koma í gegnum sendiráðin skilst mér, við erum á undanþágu þar sem við erum ferðamenn,“ segir Hildur og var Dmitri því skipaður tökumaður en afrakstur þeirrar starfsemi má sjá neðan við viðtalið.

Afskaplega átakalaust

Hún fór því næst í viðtal til læknis sem framkvæmdi á henni heilsufarsskoðun og spurði ítarlegra spurninga um heilsufar, lyfjanotkun og fleira. „Þetta er mjög formlegt hér í Rússlandi, maður fer ekki í bólusetningu nema að undangenginni læknisskoðun, dóttir mín þurfti til dæmis að byrja á að fara í skoðun til barnalæknis áður en hún fékk sínar bólusetningar,“ segir Hildur.

Þar með hafi verið komið að sjálfri bólusetningunni. Þar hafi hjúkrunarfræðingur tekið á móti þeim Dmitri og dregið fram gaddfreðna lykju með Spútnik-efninu sem hún þíddi á skammri stundu í lófa sér.

„Þetta var afskaplega átakalaust, ég fann hvorki fyrir stungunni né því þegar hún dældi lyfinu í mig og svo var þetta bara búið,“ segir Hildur sem svo þurfti að bíða í hálftíma til að ganga úr skugga um að ofnæmisviðbrögð gerðu ekki vart við sig.

Fjarlægðarregla Pútíns er einn og hálfur metri og kirfilega auglýst …

Fjarlægðarregla Pútíns er einn og hálfur metri og kirfilega auglýst á húsgögnum heilbrigðisstofnana, þar sem þó æva skyldi.

Ljósmynd/Aðsend

Nú, sólarhring síðar, líði henni bara ágætlega. „Ég er búin að fara í sjúkraþjálfun og gera fullt af alls konar æfingum. Ég mældi hitann í morgun og var með einhverjar kommur en annars finn ég ekki fyrir neinum einkennum svo þetta er bara hið besta mál, mjög átakalítil bólusetning.“

Hvað með Covid-stemmninguna í Rússlandi?

„Fólki hér er nú flestu bara orðið nákvæmlega sama,“ svarar Hildur. „Yfirvöld hvetja til grímunotkunar og þess að fólk haldi eins og hálfs metra fjarlægð í næsta mann sem er reglan hér, en það er eiginlega alveg sama hvert maður fer, fólk er ekki með grímur og virðist lítið spá í þetta. Í húsinu sem við búum í vilja allir endilega koma með okkur í lyftuna svo eiginlega má segja að fólk hér hafi jafn lítinn áhuga á þessu og Íslendingar hafa mikinn áhuga á því,“ segir Hildur og hlær.

Veitingahús, verslanir og aðrir samkomustaðir sé allt opið upp á gátt og að sögn Hildar er nánast eina grímuklædda fólkið, sem þau hafi orðið vör við, læknar.

En hvernig stendur á þessari Rússlandsdvöl þeirra yfirleitt?

„Ég fór til Rússlands í fyrra til að eignast barnið mitt á einkaspítala hér í Pétursborg. Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að velja Rússland fram yfir Noreg en reynsla okkar fjölskyldunnar af læknisþjónustu í Rússlandi er alveg hreint frábær og ég gat ekki hugsað mér að eiga barnið mitt neins staðar annars staðar. Allir læknar sem við höfum verið í samskiptum við hafa verið einstaklega vel að sér og áhugasamir um að hjálpa okkur.

Grímuklæddur Íslendingur á götu í hinni fornfrægu Pétursborg sem eitt …

Grímuklæddur Íslendingur á götu í hinni fornfrægu Pétursborg sem eitt sinn hét Leningrad. Hildur Sif er í fæðingarorlofi og fæst við skáldsagnaritun en er einnig að hefja nýtt starf sem forritari í Noregi.

Ljósmynd/Aðsend

Ekki kemur að sök að hér eru læknistímarnir klukkutími en ekki um fimmtán mínútur eins og við erum flest vön. Fram til þessa hef ég verið í fæðingarorlofi í Pétursborg og að dunda mér við að skrifa skáldsögu. Nú tekur hins vegar alvaran við þar sem ég er búin að ráða mig í vinnu í Noregi og er því á leið aftur til baka í sumar, ef Covid leyfir,“ segir Hildur af Rússlandsdvölinni.

Vill að Íslendingar kaupi Spútnik

Hún kveðst vona að fyrr en síðar fari að sjá fyrir endann á heimsfaraldrinum sem sett hefur mark sitt á daglegt líf velflestra jarðarbúa vel á annað ár. Auk þess telur hún fulla ástæðu til að íslensk yfirvöld gangi til samninga við Rússa um kaup á Spútnik V.

„Reynsla þeirra sem við höfum verið í sambandi við, bæði lækna og annarra, hérlendis og erlendis, er mjög góð og eftir að [breska tímaritið] Lancet birti grein um ágæti bóluefnisins er erfitt að sjá hvað sé í raun því til fyrirstöðu að Ísland stökkvi á vagninn og fjárfesti í rússneskri eðalvöru.

Ítalir virðast vera búnir að semja við Rússana og Austurríkismenn eru einnig farnir að stíga í vænginn við þá svo það hlýtur að fara að koma að því að hægt sé að skoða þennan möguleika í stað þess að halda áfram í slagsmálum um það litla sem er til af öðru bóluefni. Ég lét að minnsta kosti vaða og fékk mér eina Spútnik V með öllu,“ segir Hildur Sif Thorarensen að lokum, íslenskur verkfræðingur og rithöfundur nýbólusettur í Pétursborg.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið af bólusetningunni í gær með íslenskum texta þar sem gríman vill hamla hljóðbærni.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir