Sprenging hjá Sorpu í Gufu­nesi: „Verstu af­leiðingar rangrar flokkunar“ – Vísir

0
48

„Það sem þú sérð þarna eru verstu afleiðingar rangrar flokkunar og það er fyrst og fremst vegna hárréttra viðbragða okkar starfsmanna að ekki fór verr.“

Þetta segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu, um sprengingu sem varð í móttöku- og flokkunarstöð Sorpu í Gufunesi í morgun. Slökkvilið var kallað út skömmu fyrir klukkan níu í morgun vegna málsins en starfsmenn Sorpu höfðu þá þegar slökkt í eldinum.

Sjá má myndband af atvikinu og fumlausum viðbrögðum starfsmanna Sorpu í spilaranum að neðan.

„Það varð þarna sprenging. Þetta hefur verið bensínbrúsi, flugeldar, batterí úr rafmagnshjóli eða ryksuguróbot eða öðru slíku sem hefur verið sett í gráa tunnu. Þá getur þetta gerst. Þetta gerist alltof oft. Þetta var ekki fyrsta, annað eða þriðja sinn sem þetta gerist. Það þarf ekki meira en að fá eina rafsígarettu í tunnuna til að þetta gerist,“ segir Gunnar Dofri.

Sprengingin varð í hakkara sem nefnist Herkúles í móttöku- og flokkunarstöðinni. 

„Við sjáum þarna að röng flokkun getur verið stórhættuleg,“ segir Gunnar Dofri.