Sprengingin á Tonga var jafnöflug og öflugasta kjarnorkusprenging Bandaríkjamanna – DV

0
58

Útreikningar vísindamanna sýna að sprengingin sem varð í Hunga Tonga-Hunga Ha´apai eldfjlallinu í janúar á síðasta ári var 1.000 sinnum öflugri en kjarnorkusprengjan sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Hiroshima í Japan 1945. The Guardian segir að sprengingin hafi verið svo öflug að hún hafi verið á pari við öflugustu kjarnorkuvopnasprengingu Bandaríkjamanna.

Vísindamenn studdust við frásagnir sjónar- og heyrnarvotta auk gagna frá gervihnöttum, um skemmdir á Tonga og um ýmislegt annað til að reikna út hversu mikill kraftur var í sprengingunni. Sprengingarinnar varð vart um allan heim en líklegt er talið að um fimm sprengingar hafi verið að ræða. Sú síðasta svaraði til þess að 15 megatonn af TNT hafi sprungið.

Það er um 1.000 sinnum öflugri sprenging en af völdum kjarnorkusprengjunnar sem var varpað á Hiroshima og á pari við Castle Bravo sprengjuna sem Bandaríkjamenn sprengdu á Bikini Atoll 1954.