„Spurning hvort það þýði ónýtur völlur í allt sumar?“ – Vísir

0
81

„Spurning hvort það þýði ónýtur völlur í allt sumar?“ Jón Már Ferro skrifar 26. apríl 2023 14:02

Eins og stendur er Kaplakrikavöllur ekki í góðu standi en stórleikur FH og KR á að fara fram á vellinum á föstudaginn.

„Ég myndi segja að það væri skynsamlegast að sleppa því að spila á lélegum velli hérna upp á framhaldið hjá okkur. Hann er ekki góður og það er verið að vinna í því hvort honum verði frestað eða ekki,“ segir Sigmundur Pjetur Ástþórsson, vallarstjóri í Kaplakrika.

„Það er við frostmark á nóttunni og lítið við þessu að gera þegar við erum ekki með undirhita. Dúkurinn gerir ekki nóg einn og sér þegar það er svona kalt. Þú sérð muninn á dúk og undirhita fyrir norðan hjá Þór,“ segir Sigmundur og vitnar þar í iða grænan Þórsvöll.

„Ef það er hægt að spila á miðvellinum þá er hægt að spila á Kaplakrikavelli þótt það sé rugl að gera það. Það fer illa með völlinn og hægir á að hann skáni með því að taka dúkinn af,“ segir Sigmundur.

Sigurvin Ólafsson, aðstoðarþjálfari FH, segir það skýrist á næstu klukkutímum hvort spilað verði á Kaplakrikavelli á föstudag.

„Við spiluðum á Miðvellinum um daginn og hann hefur ekki versnað síðan þá. Svo er það hvort íhuga þurfi frestun og hvort það sé yfir höfuð hægt,“ segir Sigurvin.

„Það er hægt að spila á vellinum en spurning hvort það þýði ónýtur völlur í allt sumar? Völlurinn átti að vera tilbúinn en það hefur verið kalt síðustu daga og hann hefur ekki tekið við sér,“ segir Sigurvin.

„Það er næturfrost framundan og völlurinn er ekki almennilega þiðnaður eftir veturinn. Mögulega er hann bara of harður. Sérstaklega skuggasvæðið við stúkuna.“

„Ef það á að íhuga frestun þá er það ekki gert blindandi. Það þarf að sjá hvar sá leikur yrði spilaður,“ segir Sigurvin að lokum.