9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Spyr hvort fjármál borgarinnar séu á leið í gjörgæslu ráðuneytis

Skyldulesning

Kjartan Magnússon, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði fjárhagsstöðu borgarinnar að umræðuefni í jómfrúarræðu sinni á Alþingi á þriðjudag. Kjartan er fyrsti varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, og situr nú á þingi fyrir Diljá Mist Einarsdóttur, sem er á ferðalagi erlendis á vegum þingnefndar.

Sagði Kjartan stöðuna grafalvarlega og rifjaði upp að fyrir tveimur árum hafi borgin sent neyðarkall til þingsins vegna eigin fjárhagsstöðu.

Vísaði hann til texta sem hann segir runninn undan rifjum fjármálastjóra borgarinnar sjálfrar:

Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar, sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum.

„Eins og heyra má er þetta ekki fögur lýsing á fjárhagsstöðu borgarinnar. Síðan þessi texti var skrifaður af fjármálastjóra Reykjavíkurborgar og kynntur í borgarráði, hafa fjármál borgarinnar versnað mjög,” bætti Kjartan við. “Borgin hefur nú safnað skuldum linnulítið í aldarfjórðung og þær eru nú komnar yfir 400 milljarða króna. Það þýðir að borgin hefur skuldsett hvern íbúa sinn um 3 milljónir króna og hverja fjögurra manna fjölskyldu um rúmar 12 milljónir króna.”

Kjartan sagði þá jafnframt að gott væri að fá upplýsingar um það í þinginu hvort eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi brugðist við neyðarkallinu fyrir tveimur árum og hvaða leiðir væru til úrbóta. „Er Reykjavíkurborg komin í gjörgæslu hjá sveitarstjórnarráðuneytinu eða á leið þangað?“ bætti hann við.

Sagðist Kjartan jafnframt ætla að leggja til formlega fyrirspurn um málið til sveitarstjórnarráðherra á þinginu.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir