Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, staðfesti á upplýsingafundi almannavarna í dag að Elísabet Guðmundsdóttir, sem talað hefur mikið gegn sóttvörnum, er ekki með lækningaleyfi.
Neitaði sóttkví og sýnatöku við komuna til landsins
Elísabet kom fyrir helgi til landsins frá Danmörku og er hún nú til skoðunar hjá lögreglu. Varðar málið meint brot á sóttkví en Elísabet gekkst hvorki undir sýnatöku á flugvellinum né sóttkví. Setti hún myndbönd á samfélagsmiðla af því þegar hún neitaði bæði að fara í sóttkví eða sýnatöku á flugvellinum eins og reglur gera ráð fyrir.
Elísabet mætti svo á mótmæli gegn Covid-19 ráðstöfunum hins opinbera sem haldinn var á Austurvelli í fyrradag, degi eftir heimkomu sína.
Á heimasíðu Landlæknis má finna skrá yfir starfsleyfi sem Landlæknir hefur gefið út. DV sagði frá því í gær að nafn Elísabetar sé ekki að finna þar. Þar segir þó að skráin sé uppfærð daglega. Þar má jafnframt finna nöfn heilbrigðisstarfsmanna sem ekki hafa lagt stund á störf í heilbrigðisþjónustu í mörg ár.