Tilkynnt var til lögreglu um tvær konur vera að stela þvotti úr sameiginlegu þvottaherbergi í fjölbýlishúsi í Kópavogi á ellefta tímanum í gærkvöldi. Konurnar komust undan á bifreið og höfðu með sér föt og fleira.
Þar sem þetta var í Kópavoginum er ljóst að þetta er ekki þvotturinn sem var skilinn eftir þegar þvottavélinni var stolið á laugardagskvöldið í miðborginni.
Á níunda tímanum var maður handtekinn í Austurbænum (hverfi 105) en hann er grunaður um vörslu og sölu fíkniefna auk brota á vopnalögum. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslum lögreglu.
Tveir voru handteknir í sama hverfi grunaður um húsbrot og fleiri brot um kvöldmatarleytið. Þeir eru báðir vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Um miðnætti var síðan ökumaður sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna einnig stöðvaður í hverfi 105.
Í nótt var síðan tilkynnt til lögreglu um mann vera að brjóta upp hraðbanka á Seltjarnarnesi. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.