2.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Starfsfólk Eflingar mætt hatri

Skyldulesning

Ragnheiður Valgarðsdóttir.

Ragnheiður Valgarðsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnheiður Valgarðsdóttir, starfsmaður á skrif­stofu Efl­ing­ar og fyrr­ver­andi trúnaðarmaður, segir flesta núverandi starfsmenn Eflingar hafa hætt störfum og muni aldrei nokkurn tímann mæta aftur. Þetta kemur fram í pistli á facebook-síðu Ragnheiðar þar sem hún lýsir andrúmsloftinu á skrifstofu Eflingar og hatri sem fólk hefur sýnt starfsfólkinu.

„Líklega mun Sólveig sjálf, og hennar gallhörðu fylgjendur, sjá um starfsemi skrifstofunnar næstu vikurnar. Mér hryllir við þeim áhrifum sem það mun hafa á þá sem hjálp þurfa, sem í sárri neyð þurfa að leita í þekkingu Eflingar en munu grípa í tómt,“ skrifar Ragnheiður.

Hún segir núverandi starfsfólk gjörsamlega búið á því það og að það hafi þurft að þola stöðugar árásir, mikið álag, svefnleysi, streitu, skort á stuðningi og að á þau hafi öskrað. Sumir þori ekki út úr húsum eða hafi ekki orku til að rísa á fætur.

„Það vorkennir ykkur enginn“

Í færslunni greinir Ragnheiður frá bréfi sem hún fékk frá Jóni nokkrum félagsmanni í Eflingu þar sem hann segist standa með Sólveigu og að félagsmenn vorkenni starfsmönnunum ekki nokkuð.

„Það vorkennir ykkur enginn, enda kaus ykkur enginn, það var bókstaflega kosið ykkur út, ef einhver á að biðjast afsökunar þá eru það þið skrifstofulið við meðlimi Eflingar fyrir þetta skítkast gegn okkar formanni,“ segir meðal annars í bréfinu. 

„Síðustu mánuði höfum við þurft að taka á móti fólki eins og honum Jóni, sem trúir því upp á okkur að við séum vont fólk og viðmót þess gagnvart okkur er eftir því, eintómt hatur. Hver sem er getur séð að þetta eru ómannsæmandi andlegar aðstæður, mannskemmandi. Því ætti það ekki að þykja undarlegt að við séum meira og minna komin í veikindaleyfi vegna streitu, þunglyndis og kulnunar?“

Ragnheiður segir það sárt að sjá félagsmenn Eflingar skrifa um starfsmennina sem sjálftökulið sem séu ekki verð launa sinna.

„Við höfum borið hag þessa fólks fyrir brjósti árum saman, barist með því í alls konar vinnudeilum, hjálpað því að leiðrétta launaþjófnað og fá bætur fyrir þær misgjörðir sem þeim hefur verið beitt.Við höfum leiðbeint fólki í gegnum sjúkdóma og slys, hvernig það geti fengið hjálp í gegnum sjóði Eflingar og margt annað. Flest okkar eru í félagsmenn í Eflingu, og við höfum unnið í þágu allra félagsmanna Eflingar,“ skrifar Ragnheiður.

Sólveig komin með ímynd frelsara verkalýðsins

Ragnheiður bendir á að í hugum sumra sé Sólveig Anna komin með ímynd frelsara verkalýðsins en eins og oft sé með trúarbrögð verði fólk blint á sannleikann. Sólveig Anna sé bara venjuleg manneskja með sína kosti og galla.

Ragnheiður segir Sólveig hafa verið hægláta og hlédræga og einbeitt sér að sínu starfi. Sumum hafi ekki þótt neitt að því en það hefði verið gott að fá stuðning og að starfinu væri sýndu áhugi.

„En eitthvað var að, mikið var um að fólk væri rekið, að því virtist fyrirvaralaust, fólk fór að efast um sitt öryggi í starfi, og úr varð að trúnaðarmenn skrifuðu niður þær upplifanir sem fólk hafði og báðu um fund til að létta andrúmsloftið og gera vinnustaðinn betri. Í þessu skjali er verið að fjalla um vinnustaðinn, nafn Sólveigar kemur hvergi fram í skjalinu og því á engan hátt hægt að kalla þetta vantraust á hana. Þessu skjali var komið í hendur Sólveigar, fundurinn fékkst reyndar ekki haldinn en á einhvern fáránlegan hátt varð þessi stutta ályktun til þess að Sólveig sagði af sér.“

Ragnheiður segir það víðs fjarri að starfsmenn hafi bolað Sólveigu úr starfi. Henni hafi verið sýnd full virðing af öllum og fengið þann stuðning sem hún bað um.

Þá segir hún það mikla óskhyggju að halda að það sé hægt að skipta út stórum hluta starfsmanna á einu bretti. Slíkt muni hafa í för með sér mikið skerta þjónustu.

Komið að því að Sólveig mæti

„Auk þessa get ég ekki séð að nýtt starfsfólk geti sætt sig við óbreytta stjórnun skrifstofunnar, stjórnleysi og samskiptaleysi,“ skrifar Ragnheiður.

„Sólveig hefur kallað ítrekað eftir vinnufriði svo hún geti snúið aftur til þeirra starfa sem hún er “lýðræðislega” kosin til af félagsmönnum. Ég held að það sé komið að því að Sólveig mæti. Skrifstofan er alveg að verða tóm. Henni hefur tekist að tæma hana. Reka alla og koma fólki í langtíma veikindi með hegðun sinni.

Henni er svo sannarlega óhætt að fara að koma til starfa niður í Guðrúnartún. Það er ekki mikil hætta á að hún þurfi að hitta samstarfsfélaga, þeir eru örfáir eftir. Hún getur bara komið og hafist handa við að afgreiða félagsmenn með þeirra allskonar mál,“ skrifar Ragnheiður að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá pistilinn í heild sinni.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir