8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Starfsmaður sem féll ofan í gryfju í húsnæði Frumherja tapaði skaðabótamáli

Skyldulesning

Starfsmaður Frumherja sem féll ofan í gryfju inni í húsnæði fyrirtækisins að Hesthálsi 6-8 haustið 2016 tapaði í dag skaðabótamáli gegn tryggingafélagi Frumherja, Vátryggingafélagi Íslands. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Slysið varð þann 19. október árið 2016. Maðurinn hafði þá starfað í 17 ár hjá Frumherja. Atvikinu er lýst svo í texta dómsins:

„Stefnandi hafði gegnt ýmsum störfum fyrir félagið en starfaði á slysdegi sem þjónustufulltrúi. Í starfi hans fólst meðal annars að annast sendiferðir og flutning á gögnum milli skoðunarstöðva. Áður hafði hann starfað sem skoðunarmaður og við bílaviðgerðir. Frumherji hf. hafði keypt frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda.

Hinn 19. október 2016 var stefnandi að koma úr sendiferð. Gekk hann inn um göngudyr sunnanmegin við hús vátryggingartaka að Hesthálsi 6 til 8 í Reykjavík. Ágreiningslaust er að blautt var í veðri umræddan dag. Er stefnandi kom inn gekk hann meðfram gryfju, sem staðsett var á svokallaðri vörubílabraut, og í átt að göngubrú sem lá yfir gryfjuna. Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefnandi hafi síðan stigið á göngubrúna og runnið til með þeim afleiðingum að hann hafi lent á hliðarkanti gryfjunnar og svo ofan í henni. Stefndi byggir aftur á móti á því að ekki liggi fyrir hvar nákvæmlega stefnandi hafi verið staddur þegar hann féll, þ.e. hvort hann hafi verið kominn inn á göngubrúna eða enn þá verið á gólfinu, en gögnum málsins um þetta atriði ber ekki saman að öllu leyti. Stefnandi var í kjölfarið fluttur á bráðamóttöku Landspítala.“

Í umsögn Vinnueftirlitsins kemur fram að gryfjan hafi verið 173 cm djúp og 94 cm á breidd. Í dómnum segir um umsögn Vinnueftirlitsisn: „Niðurstaða Vinnueftirlitsins var að orsök slyssins hefði verið sú aðbleyta hefði verið á skóm stefnanda sem hefði valdið því að hann hefði runnið til á kantinum eða göngubrúnni. Loks koma fram fyrirmæli um úrbætur í skýrslunni, þ.e. að rekja megi orsök slyssins til þess að kantur sé við gryfjuna sem hætta sé á að menn reki tána í ef þeir gangi nálægt henni og þá sérstaklega við göngubrúna. Einnig sé hætta á því að bleyta safnist á kantinum við gryfjuna. Fram kemur að gefin hafi verið munnleg fyrirmæli um að gönguleiðir í kringum gryfjuna yrðu endurskoðaðar. Í skýrslunni er að finna myndir af vettvangi slyssins.“

Maðurinn byggði kröfu sín á því að Frumherji beri skaðabótaábyrgð í málinu því slysið megi rekja til vanbúnaðar á vinnustað og háttsemi starfsmanns sem fyrirtækið hafi borið ábyrgð á. Maðurinn tefldi fram læknisfræðilegum gögnum sem sýndu að hann hefði orðið bæði fyrir tímabundnu og varanlegu tjóni vegna slyssins. Hlaut hann áverka á úlnlið. Segir hann að göngubrúin hafi verið vanbúin, hún ekki nógu breið og gönguflöturinn ekki nógu sléttur. Í aðdraganda slyssins hefði verið búið að gera athugasemdir við ástand göngubrúarinnar þar sem hún hafi ekki verið talin örugg. Þá hafi brúin oft verið hál í bleytu en mikil rigning var þennan dag og maðurinn bar inn á skóm sínum bleytu að utan.

Tryggingafélagið hafnar kröfunni meðal annar sá þeim forsendum að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Þá sé sök ósönnuð og að maðurinn hafi glatað bótarétti vegna stófellds gáleysis. Ósannað sé að eitthvað hafi verið athugavert við brúna, orsök þess að maðurinn féll ofan í gryfjuna hafi verið eingöngu sú að skórnir hans hafi verið blautir og þess vegna hafi hann runnið til. Meðal raka tryggingafélagsins eru þau að manninum hefði verið í lófa lagið að nota ekki göngubrúna yfir gryfjunni heldur hefði hann getað komist framhjá henni með öðrum hætti.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að um óhappatilvik væri að ræða og hinir stefndu væru ekki skaðabótaskyldir. Var því kröfum mannsins hafnað og Vátryggingafélag Íslands sýkn af þeim. Málskostnaður var felldur niður.

Dóminn má lesa hér

.

Innlendar Fréttir