Gengi Arsenal, í ensku úrvalsdeildinni, hefur ekki verið gott það sem af er tímabils. Félagið er að upplifa sína verstu byrjun í deildinni síðan árið 1974 og pressan á knattspyrnustjóranum Mikel Arteta, eykst með hverri vikunni.
Kieran Tierney, varnarmaður liðsins, stendur hins vegar þétt við bakið á knattspyrnustjóranum.
„Gengið hingað til hefur ekki verið nægilega gott, hjá því verður ekki komist. Þetta hefur verið hræðilegt ef ég á að vera hreinskilinn. Við höfum ekki verið að sýna okkar rétta andlit. Stuðningsmenn félagsins eiga betra skilið, knattspyrnustjórinn á betra skilið,“ sagði Kieran Tierney í viðtali við Evening Standard.
Arsenal tapaði í gær 0-1 á heimavelli gegn Burnley. Tierney segir að leikmenn liðsins verði að taka ábyrgð á slæmu gengi.
„Það eru við leikmennirnir, sem verðum að taka ábyrgð á þessu, þetta gerist á okkar vakt. Við erum með frábæran knattspyrnustjóra og við höfum 100% trú á honum,“ sagði Tierney.
Arsenal situr í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar tólf umferðir hafa verið spilaðar. Liðið hefur aðeins unnið 4 leiki af þessum tólf og hefur náð í 13 stig af 36 mögulegum.