Stjörnur ó­sáttar við að vera bendlaðar við Twitter-á­skrift – Vísir

0
90

Stjörnur ó­sáttar við að vera bendlaðar við Twitter-á­skrift Samfélagsmiðillinn Twitter heldur áfram að krukka í hvernig hann útdeilir staðfestingamerkjum til notenda sinna. Heimsþekktir einstaklingar sem misstu merkið eftir nýlegar breytingar fengu það skyndilega til baka. Þeir eru ekki allir sáttir þar sem Twitter gefur ranglega í skyn að þeir hafi greitt fyrir þjónustuna.

Blátt staðfestingarmerki við notendanöfn var upphaflega leið sem Twitter fann upp á til þess að staðfesta að notendur væru raunverulega þeir sem þeir segðust vera, sérstaklega þegar um var að ræða fjölmiðla, stofnanir og heimsþekkta einstaklinga. Notendur greiddu ekki fyrir merkin.

Eftir að auðkýfingurinn Elon Musk keypti Twitter í fyrra hefur hann ítrekað gert breytingar á staðfestingarmerkjunum í þeirri viðleitni að fá notendur til þess að greiða áskrift að miðlinum. Hann hefur ítrekað þurft að draga þær til baka. 

Þegar notendum var boðið að kaupa sér staðfestingarmerki með því að greiða áskriftargjald spratt upp fjöldi reikninga sem villti á sér heimildir í fyrra. Tíst frá einum slíkum reikningi sem þóttist vera bandarískt lyfjafyrirtæki um að það ætlaði að gefa insúlín leiddi til þess að hlutabréfaverð í því hríðféll.

Síðan þá hefur Twitter hringlað fram og til baka með staðfestingarmerkin og á hvaða forsendum notendur fá þau. Í síðustu viku virtist Musk loksins hafa staðið við stóru orðin um að aðeins þeir sem greiddu áskrift fengu staðfestingarmerkið þar sem þau byrjuðu að hverfa af reikningum stórstjarna eins og knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldo, milljarðamæringsins Bills Gate auk fjölmiðla og stofnana.

Látinn í fimm ár en kominn með staðfestingarmerki aftur AFP-fréttastofan segir að aðeins brot af þeim sem voru áður með staðfestingarmerki hafi keypt sér áskrift að Twitter, svonefnt Twitter Blue. Innan við fimm prósent af um 407.000 reikningum sem misstu merkið í vikunni.

Um helgina birtust bláu merkin skyndilega aftur við reikninga sumra þekktra notenda, þar á meðal hryllingssagnarithöfundarins Stephens King, NBA-leikmannsins LeBrons James og Donalds Trump. Musk hélt því fram í svörum á Twitter að hann hefði persónulega greitt áskrift fyrir nokkra notendur eins og King.

Stephen King var á meðal þeirra sem komu af fjöllum eftir að þeir fengu staðfestingarmerki Twitter til baka án þess að hafa greitt eða staðfest auðkenni sitt.Twitter Þegar staðfestingarmerki notendanna er skoðað segir að þeir hafi það annað hvort vegna þess að þeir greiddu Twitter áskrift eða staðfestu símanúmer sitt. Fjöldi notenda sem fékk merkið aftur um helgina mótmælti þessu og fullyrti að að hafa aldrei greitt né staðfest nokkuð.

„Maður minn, ég borgaði ekki fyrir twitter blue, þú munt finna fyrir reiði minni teslu-kall,“ tísti bandaríski rapparinn Lil Nas X en Musk er einnig eigandi rafbílaframleiðandans Tesla.

Látnir einstaklingar eins og stjörnukokkurinn Anthony Bourdain voru á meðal þeirra sem fengu staðfestingarmerkið aftur um helgina. Bourdain lést fyrir fimm árum.

Tengdar fréttir Gera ekki lengur greinar­mun á á­skrif­endum og þekktum not­endum Samfélagsmiðillinn Twitter virðist hafa dregið í land með fyrirhugaðar breytingar á staðfestingarmerkjum á síðunni. Til stóð að svipta þekkta notendur og stofnanir merkinu um mánaðamótin en það virðist að mestu ekki hafa gerst. Þess í stað er ekki lengur hægt að greina á milli þekktra notenda og þeirra sem greiddu áskrift til þess að fá merkið.

3. apríl 2023 11:57

Ný á­­skriftar­­leið á Twitter í loftið Twitter kynnir formlega nýja áskriftarleið þar sem notendum miðilsins býðst að kaupa vottun á aðgangi sínum fyrir 8 bandaríkjadali, eða tæpar tólf hundruð krónur, á mánuði. 

5. nóvember 2022 21:35

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Mest lesið
Fleiri fréttir Sjá meira