-1 C
Grindavik
21. janúar, 2021

Stöð 2 mildaði sviðsetningu á morðinu á Hagamel – Ragnar lýsir hryllingnum -„Þetta var eins og í sláturhúsi“

Skyldulesning

Ragnar Jónsson, blóðferlasérfræðingur hjá Tæknideild lögreglunnar, segir að morðvettvangur í þættinum Ummerki á Stöð 2 hafi verið mildaður í sviðsetningu í hrottalegu morði sem framið var á Hagamel árið 2017. Þá myrti Khaled Cairo, hælisleitandi frá Jemen, Sanitu Brauna, 44 ára gamla konu frá Lettlandi sem hafði búið hér og starfað í langan tíma. Khaled taldi sig vera í sambandi við Sanitu en það var hugarburður hans. Þau höfðu hist einu sinni áður og hún vildi ekkert með hann hafa, en einhver þráhyggja í garð konunnar virðist hafa gripið hann.

Ragnar féllst á að ræða málið við DV. Viðkvæmum er ráðið frá því að lesa lýsingarnar sem koma hér á eftir.

„Við drógum verulega úr þessu í þættinum sem var sýndur í gærkvöld. Þetta var sviðsetning en ekki myndir af vettvangi sem birtist í þættinum. Við reyndum að draga úr til að ofbjóða fólki ekki en þetta er með svakalegri vettvöngum sem hafa komið upp,“ segir Ragnar og lýsir vettvangnum þessum þessum orðum:

„Þetta var eins og í sláturhúsi. Hann var búinn að gata á henni hausinn með því að brjóta tvær flöskur á henni og berja hana með þriðju flöskunni. Svo nær hún að komast fram á ganginn, trúlega til að reyna að flýja inn á baðherbergi, sem líklega var eina herbergið þar sem hún hefði getað læst að sér. En þá nær hann í slökkvitæki, situr síðan klofvega á henni og lætur höggin dynja á henni. Þannig að hún er þegar orðin alblóðug og við  höggin kastast enn meira blóð. Það var hvergi hægt að stíga niður fæti á þessum litla gangi fyrir blóði og ekki hægt að koma við veggi, vegna þess að það var allt út í blóði.“

Ragnar Jónsson. Mynd: Valli

Ragnar segir að vettvangurinn fari á topp tíu yfir hryllilegustu vettvanga sem hann hefur upplifað í starfi sínu. „Það getur vissulega ýmislegt hryllilegt gerst, eins og þegar menn skjóta sjálfa sig með haglabyssu í höfuðið. Í banalysum geta hausar og útlimir fokið. Það gerist margt hryllilegt en þetta mál fer klárlega á topp tíu.“

Khaled var úrskurðaður sakhæfur og dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið. Sem fyrr segir bendir ekkert til að hann og Sanita hafi í raun þekkst að ráði og segir Ragnar að engin merki um samskipti við Khaled hafi fundist í tölvugögnum Sanitu.

„Þetta er gert í einhverjum tryllingi og heift. Og bara mannhatri. Maður getur ekki ímyndað sér hvað brengluð sú manneskja er sem tekur líf annarrar manneskju af því hún segir nei. Þetta er frá einhverjum kúltúr sem maður skilur ekki. Hann kemur frá kúltúr þar sem ekki virðist litið sérstaklega upp til kvenna,“ segir Ragnar en hann undrast hvað málið fékk litla umfjöllun í fjölmiðlum og telur hann að Íslendingar láti sér oft í léttu rúmi liggja örlög útlendinga sem láta lífið hér:

„Ég man á sínum tíma hvað lítið var fjallað um þetta í fjölmiðlum, það var eins og það væri tabú af því hælisleitandi átti í hlut. Síðan tveimur og hálfu mánuði síðar var hælisleitandi myrtur á Austurvelli, Klevis Sula, ég vann við það mál og það var ekkert fjallað um það. Eins er með slysin, það er eins og fólk hugsi, æ þetta er útlendingur, ferðamaður, næsta mál. Þegar létust tvær konur og barn í bílslysi fyrir austan hér um árið þá fékk það mál hins vegar mikla umfjöllun í bresku pressunni,“ segir Ragnar.

Staðsetningin á morðinu á Hagamel gerði málið enn hryllilegra fyrir Ragnar því amma hans bjó rétt hjá. „Ég hef búið í Vesturbænum og á Seltjarnarnesi frá því ég flutti frá Stykkishólmi fjögurra ára gamall og þegar maður er sendur á vettvang í þessi hverfi óttast maður alltaf að um sé að ræða einhvern sem maður þekkir.“

Innlendar Fréttir