Stórhuga leiðangur Evrópuríkja til tungla Júpíters er hafinn – Leita að lífi – DV

0
121

Föstudaginn 14. apríl var Juice-geimfarinu skotið á loft frá geimhöfninni Kourou í Frönsku Gíneu í Suður-Ameríku. Það var Ariane 5-eldflaug sem bar geimfarið, sem vegur 6,2 tonn. Nafn geimfarsins er stytting á „Jupiter Icy Moons Explorer“. Verkefnið sem bíður geimfarsins er ekkert smáverkefni því ferðin til Júpíters tekur 8 ár en þangað kemur það í júlí 2031 og fer á braut um gasrisann.

Verkefninu lýkur síðan 2035 eða 2036 þegar Juice verður látið hrapa niður á Ganymedes.

Þetta er stórt og umfangsmikið verkefni, á pari við það besta sem bandaríska geimferðastofnunin NASA getur framkvæmt.

Eins og áður sagði fer Juice á braut um Júpíter og á aðallega að rannsaka þrjú af fjórum stórum tunglum plánetunnar. Þetta eru Evrópa, Ganymedes og Callisto.

Ástæðan fyrir að þessi þrjú tungl voru valin er að talið er að á þeim öllum sé djúpt haf undir yfirborðinu. Kenning er á lofti um að á þessum þremur tunglum sé rúmlega sex sinnum meira vatn en í höfunum á jörðinni og þar með sé mögulegt að þar sé líf.

Evrópska geimferðastofnunin stendur að verkefninu og hefur hún sagt að helstu verkefnin sem Juice á að leysa séu:

Að rannsaka höfin: Juice á að safna gögnum, bæði um hversu djúpt undir yfirborðinu höfin eru og hversu mikið vatn er í þeim.

Hvaða áhrif hafa segulsvið Júpíters og geislabelti á tunglin? Júpíter er með mjög flókið og sterkt segulsvið, tuttugu sinnum sterkara en segulsvið jarðarinnar. Þess utan er plánetan með geislabelti sem senda stöðugt háorkuagnir á tunglin, sérstaklega Evrópu. Þessi mikla geislun, sem er banvæn fyrir fólk, getur ekki annað en hafað haft áhrif á tunglin en hvaða áhrif? Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir líf?

Rannsaka Ganymedes: Ganymedes er stærsta tungl Júpíters. Það er stærra en Merkúr og Plútó og eina tunglið með segulsvið. Jarðfræði Ganymedes er einnig áhugaverð því þar eru hæðarhryggir og djúp gil. Juice mun enda ferð sína með að fara á braut um Ganymedes og nota minnst eitt ár til að rannsaka tunglið.

Hvernig virkar Júpíter? Juice mun ekki gleyma Júpíter og mun rannsaka þau öfl sem knýja veðurkerfi og loftslag plánetunnar auk fleiri þátta.